140. löggjafarþing — 70. fundur,  13. mars 2012.

gjaldeyrismál.

608. mál
[00:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum fjallað um þetta mál síðan klukkan fjögur í dag en ég hef enn þá ekki fengið svar við fyrirspurn minni um hver nettógjaldeyrisvaraforðinn er. Hv. formaður fór yfir sumar af þeim upplýsingum sem komu fram í nefndinni en þessari spurningu er hins vegar enn ósvarað. Fulltrúar Seðlabankans töldu að það væru svo margar leiðir til að finna út úr því hver hann væri að ekki væri hægt að koma með neitt eitt svar núna og fannst mér það ekki mjög trúverðugt.

Mér finnst heldur ekki trúverðugt, virðulegi forseti, að við séum að gera þetta í svo miklum flýti núna. Þetta er svo sannarlega ekki ný staða í þessum málum. Bæði hafa þessar gloppur verið til staðar í langan tíma og sömuleiðis hafa menn átt að geta séð fyrir stöðu gjaldeyrismála og um hana hefur meðal annars verið fjallað á opinberum vettvangi. Það er áhugavert, virðulegi forseti, ef það er þannig eins og lagt er upp með að við séum fyrst og fremst að mæta þessari hugsanlegu 7 milljarða útgreiðslu tvisvar á ári, vegna þess að við erum, miðað við þær upplýsingar sem við fengum í nefndinni á þessum skamma tíma, að taka nokkuð mikla áhættu með þessu. Í það minnsta telur sá lögfræðingur sem við höfum kannski reitt okkur hvað mest á í efnahags- og viðskiptanefnd að þessu fylgi þó nokkur áhætta varðandi skaðabótaábyrgð ríkisins.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það hversu slæm gjaldeyrishöftin eru í eðli sínu. Það liggur hins vegar fyrir að hæstv. ríkisstjórn hefur mistekist fullkomlega að afnema þau og sömuleiðis hefur hæstv. ríkisstjórn mistekist fullkomlega að koma með trúverðuga stefnu um það hvernig við ætlum að koma okkur út úr þeim. Því dýpra sem við sökkvum í gjaldeyrishöftin því erfiðara verður að koma okkur út úr þeim. Öll þau varnaðarorð sem menn hafa haft uppi í tengslum við gjaldeyrishöftin almennt og sömuleiðis stefnuleysi ríkisstjórnarinnar hvað þau varðar hafa því miður gengið eftir. Þeir sem hafa verið svartsýnastir hafa því miður haft rétt fyrir sér. Þess vegna erum við núna á þessum stað að ganga frá þessu máli.

Svo ég endi hins vegar á jákvæðu nótunum verður að segjast eins og er að þær breytingar sem hv. þm. Helgi Hjörvar mælir hér fyrir eru betri en engar og bæta annars slæmt mál. En því miður, virðulegi forseti, er ekki hægt að styðja þetta mál af augljósum ástæðum og það er líka ljóst, virðulegi forseti, að því er ekki lokið. Það mun kalla á umræður í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og sömuleiðis í þinginu um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og fullkomið getuleysi við að afnema gjaldeyrishöftin.