140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í upphafsmáli framsögumanns, 1. flutningsmanns frumvarpsins, vék hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir að því að sérkennilegar aðstæður og vinnubrögð á þinginu hefðu orðið til þess að málið var kallað aftur til nefndar, að upp hefði staðið einhver þingmaður úti í sal, sem að mati hv. þingmanns hefði þar af leiðandi ekkert með það að gera, og óskað eftir að málið yrði kallað inn í nefnd og fjallað yrði um umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Nú spyr ég hv. þingmann hvort hún telji það ekki eðlilegt og skyldu hvers þingmanns að setja sig inn í öll þau mál sem fyrir liggja á þingi og hafa á þeim skoðun. Viðkomandi þingmaður er í þessu tilviki ég — ég ætla að upplýsa það, frú forseti, að sá sem hér stendur óskaði eftir því að málið yrði kallað til nefndar milli 2. og 3. umr. Er ekki fullkomlega eðlileg skylda og réttur þingmanns að standa hér upp og óska eftir því að mál fái meiri umfjöllun ef einstakir þingmenn telja, óháð því í hvaða nefnd þeir sitja, að mál þurfi frekari umfjöllun ef fyrir liggja upplýsingar einhvers staðar í samfélaginu sem þarf að fjalla um?

Sá sem hér stendur sat tímabundið í umhverfisnefnd þegar fjallað var um skipulagslög og önnur lög á fyrri þingum og átti þá talsverð samskipti við Samband íslenskra sveitarfélaga og hefur einnig setið í sveitarstjórnum og átt þar af leiðandi talsverð samskipti við Samband íslenskra sveitarfélaga, og fékk ávæning af því að málið hefði farið fram hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og yrði klárað þennan dag og kom því þeirri frómu ósk á framfæri að málið yrði aftur tekið til nefndar og fjallað um það betur svo að það væri betur ígrundað. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji eitthvað óeðlilegt við það, frú forseti.