140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg augljóst að einhverjum er mjög í mun að gera gjaldmiðil okkar ótrúverðugan og fer þar í broddi fylkingar hæstv. forsætisráðherra sem, eins og hefur verið nefnt hér, hefur talað niður gjaldmiðilinn við hvert einasta tækifæri. Það er vitanlega áhyggjuefni ef ráðamenn eru kannski með virkum hætti að setja gjaldmiðilinn í þá stöðu að eftir því sé leitað að fella hann við hvert tækifæri.

Maður veltir fyrir sér hvort það geti verið þáttur í því að þrengja gjaldeyrishöftin. Er hugsanlega verið að svelta íslenska þjóð inn í þetta Evrópusamband sem einhverjir eru svo ofsalega hrifnir af? Maður hlýtur að velta því fyrir sér. En við hljótum líka, virðulegi forseti, að þurfa að viðurkenna að krónan er ekki ónýtur gjaldmiðill ef vel er farið með. Krónan er að sjálfsögðu sá gjaldmiðill sem er að hjálpa okkur (Gripið fram í.) og skapa þær tekjur sem við höfum í dag. (Gripið fram í: Hvers vegna …?) Við megum ekki gleyma því heldur. Það breytir því hins vegar ekki að við verðum að hafa kjark og þor til að ræða ólíka kosti í stöðunni og það er nákvæmlega það sem við framsóknarmenn höfum verið að gera. Við erum ekki eins og — ég veit ekki hvort það má taka dýralíkingar í þessum stól en það hefur verið gert áður. Þið kannist við úr teiknimyndunum þegar gulrótin er fyrir framan múldýrið sem hleypur í hringi eftir henni. Ég held að evran sé þannig fyrir suma hér inni sem hlaupa bara hring eftir hring ef það er evra fyrir framan ginið. Er það það sem við viljum? (Gripið fram í.) Af hverju þora menn ekki að taka umræðu um það hvað er fýsilegast í stöðunni heldur horfa blindir á þessa einu lausn sem er engin lausn til framtíðar?

Virðulegi forseti. Mig langar líka að benda þeim hv. þingmanni sem talaði fyrstur í dag um stöðu heimilanna að býsna margar tillögur hafa verið lagðar fram í þinginu. Þar höfum við framsóknarmenn farið fremstir með að leggja fram tillögur um hvernig bæta megi hag heimilanna. Fyrst 2009 voru lagðar fram tillögur um hvernig nýta mætti hið svokallaða svigrúm í bönkunum til þess. Þá var hv. þingmaður hugsanlega, a.m.k. flokkurinn hans, mjög á móti því að fara þá leið. Það eru búin að vera fjölmörg tækifæri (Forseti hringir.) til að bæta hag heimilanna og því eru þessar ótrúlegu tillögur og yfirlýsingar sem koma fram núna mjög ótrúverðugar.