140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég leyfi mér að áætla að það sé skynsamlegra að færa heilsugæsluna til sveitarfélaganna áður en menn færa málefni aldraðra til sveitarfélaga. Til að hvert sveitarfélag sé til þess bært að veita þá nærþjónustu sem aldraðir þurfa oft á að halda verða sveitarfélögin að hafa meðul, ef við getum orðað það svo, til að horfa heildstætt á þá þjónustu sem íbúar hafa þörf fyrir og geta veitt hana. Með því að flytja heilsugæsluna strax eða á undan málefnum aldraðra verða sveitarfélögin betur í stakk búin til að taka við þeim málaflokki.

Ég árétta hins vegar það sem ég sagði í ræðu minni áðan, það þarf að skilgreina hvaða heilbrigðisþjónusta á að vera á heilsugæslustöðvunum og hafa það klárt og kvitt þannig að ekkert fari á milli mála og menn komi ekki með eftiráskýringar um að annaðhvort hafi of lítið farið eða of mikið. Það er forsendan fyrir flutningi og það er líka forsenda fyrir flutningi að sú samvinna sem rætt hefur verið um, sem slík yfirfærsla á að byggja á, verði unnin varðandi fasteignir, starfsfólk og starfsmannamál til að unnt sé að leysa þetta farsællega. Sömuleiðis þarf að gæta að faglegum og fjárhagslegum grunni.

Ég ítreka, virðulegur forseti, að ég tel brýnt að heilsugæslan verði flutt frá ríki til sveitarfélaga áður en við færum málefni aldraðra frá ríki til sveitarfélaga.