140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisvaldið hefur mikilvægu hlutverki að gegna í atvinnulífinu þegar slaki er í hagkerfinu eins og nú er en skuldsetning og staða ríkissjóðs leyfir hins vegar ekki flýtingu annarra samgöngumannvirkja en þeirra sem geta að mestu borið sig sjálf. Vaðlaheiðargöng eru verkefni sem getur að öllum líkindum borið sig sjálft og því eru þau sá vænlegi kostur sem við lítum til núna.

Framkvæmdin er mikilvæg fyrir þróun og markaðssetningu atvinnusvæðanna fyrir norðan og er auk þess mikil samgöngubót og eykur öryggi íbúanna sem þurfa að fara yfir Víkurskarð að vetri til. Þetta þekkjum við. Það er mikilvægt að allar greiningar og umsagnir um verkið verði rýndar vandlega áður en frumvarpið verður lagt fram. Töfin sem hv. þingmenn nefna í umræðunni stafar af því að við viljum styrkja alla umgjörð um verkið.

Vaðlaheiðargöng eru eina stóra samgönguverkefnið sem mögulegt er að ráðast í á þessu ári, eins og ég sagði áðan. Þörfin fyrir atvinnusköpun er mikil og ávinningur norðursvæðisins með verkefninu er einnig mikill. Það er von mín að sátt náist og stuðningur við þetta verkefni enda sé umgjörðin það traust að fyrirheit séu um að verkefnið standi undir sér og að önnur verkefni þurfi ekki að líða fyrir það. Þær fullyrðingar standast líka.