140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[17:43]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Magnúsi Norðdahl fyrir ræðu hans. Mig langar að spyrja hann eiginlega um tvennt, ég bið hann afsökunar hafi það farið fram hjá mér að það hafi fram komið í ræðu hans.

Í fyrra tilvikinu langar mig að spyrja hvort hann telji vænlegt með einum eða öðrum hætti að banna samtök eins og vélhjólagengjasamtök, sem eru sum hver alheimssamtök með alheimsforseta sem setur leikreglur og aðrir að því er virðist fara eftir og hlýða, hvort það sé vænlegt til árangurs að banna slíkt eða hvort við getum farið aðrar leiðir.

Í öðru lagi fannst mér áhugaverð nálgun hans á eftirlitshlutverk, með því hvernig lögreglan sinnir því hlutverki sem hún hugsanlega fær með frumvarpinu, ég tala ekki um ef það verður víðtækara en frumvarpið gerir ráð fyrir, að aðrir komi að en þeir sem á einn eða annan hátt eru innviklaðir í réttarkerfið, ef við getum orðað það svo. Sér hann fyrir sér að það geti verið þingmannanefnd? Eða sér hann fyrir sér að þingið skipi þá aðila og innan þeirrar nefndar geti verið fólk með ólíka menntun og af ólíkum toga? Við getum nefnt til dæmis siðfræðinga sem kæmu þar inn, við gætum tekið afbrotafræðinga, við gætum hugsanlega tekið félagsráðgjafa. Hefur hv. þingmaður velt því fyrir sér hvernig slík nefnd yrði skipuð?