140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi um stjórnlagaþing stendur að menn eigi að merkja við þessa fullyrðingu: Ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Má þar af leiðandi ekki breyta neinu sem ekki rekst á við lög eða alþjóðasamninga?

Önnur spurning. Í fjöldamörgum atriðum í stjórnarskránni er talað um að það eigi að gera eitthvað með lögum, frelsi fjölmiðla skal tryggt með lögum. Hvað gerist ef Alþingi setur ekki lög, gerir eitthvað annað eða gerir ekki neitt? Er þá stjórnarskráin ekki í gildi hvað þetta varðar? Er ekki miklu betra að segja að fjölmiðlar skuli vera frjálsir? Um þetta er þjóðin að fara að greiða atkvæði og hefur ekkert annað val. Þetta rekst ekkert á við lög eða reglur.