140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að álitaefnið hér sé hvort hægt sé að fella ákvæðið úr stjórnarskránni um þjóðkirkjuna án þess að um það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla (Gripið fram í: Sérstök …?) Sérstök? Já, ég tel að samkvæmt stjórnarskránni eigi fólkið í landinu rétt á því að fram fari sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um það. Ég sé ekki að hægt sé að bjóða upp á að greidd verði atkvæði í einni og sömu atkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá í heild sinni þar sem þetta ákvæði hefur verið fellt út. Ég held að ég og hv. þingmaður horfum með ólíkum hætti á málið, hvort það að fella út þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskránni telst vera breyting á kirkjuskipaninni eða ekki.

Mér sýnist að það sé breyting á kirkjuskipaninni en hv. þingmaður segir að það sé allt saman ákveðið í almennum lögum. Það er að minnsta kosti efni í sérstaka skoðun í nefndinni.