140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:29]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Stundum er spurt í þessari umræðu: Var hrunið stjórnarskránni að kenna? Svarið við þeirri spurningu er að sjálfsögðu nei. En í kjölfar hrunsins fórum við með ítarlegum hætti í gegnum ákvarðanatöku í landi okkar og samfélagi og skoðuðum hvernig stjórnkerfið brást við aðsteðjandi vanda og aðvífandi vanda í hruninu. Í rannsóknarskýrslu Alþingis er það síðan rakið í löngu máli og í fjölmörgum samantektum, greinum, ræðum og riti hefur verið tekið saman hvernig stjórnkerfi okkar vann úr þeim atburðum sem áttu sér stað á árinu 2008.

Í kjölfar alþingiskosninga 2009 var ljóst að hér á þingi var meiri hluti fyrir því að hefja þá vegferð sem við erum í miðri. Hún er mikilvæg með tilliti til hrunsins vegna þess að við erum að endurskoða hvernig ákvarðanir eru teknar í samfélagi okkar. Í grunninn er það það sem stjórnarskrá okkar gengur að stóru leyti út á. Hér er því verið að leggja til mjög umfangsmiklar breytingar á því hvernig við ákveðum hluti sameiginlega. Þetta er einn liður í margslungnu og löngu ferli sem við fjöllum um hér, þjóðaratkvæðagreiðsla, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs sem við erum að hefja umfjöllun um í þinginu.

Málið er líka mikilvægt vegna þess að burt séð frá stjórnkerfinu og því sem þar átti sér stað laskaðist sjálfsmynd þjóðarinnar í hruninu. Í eftirmála þess hefur bæði andrúmsloftið á hinum pólitíska vettvangi og umræðan á opinberum vettvangi verið mjög lituð af hörku og heift og umræðan oft og tíðum hatrammari en hollt er. Ég held að það sé mjög mikilvægur þáttur í heilunarferli þjóðarinnar og samfélagsins að koma saman með ýmsum hætti, hvort sem það er í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, á þjóðfundi eða í almennum kosningum, og taka ákvarðanir um hvaða grunngildi við viljum að séu viðhöfð og í heiðri höfð í samfélagi okkar. Ég lít svo á að stjórnarskrármálið sé af þeim toga, það sé mikilvægur áfangi í því að lagfæra og leiðrétta sjálfsmynd samfélags sem hefur orðið fyrir miklum ekki bara efnahagslegum heldur mórölskum skaða, ef ég má leyfa mér að sletta, hæstv. forseti.

Í því skyni lögðum við af stað með það sem í upphafi nefndist stjórnlaganefnd sem var sjö manna nefnd sem var samróma valin af allsherjarnefnd með þátttöku Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Við efndum til þjóðfundar að tillögu Sjálfstæðisflokksins. Við kusum til stjórnlagaþings, sem síðan var breytt í stjórnlagaráð tilnefnt af Alþingi, sem skilaði okkur þeim tillögum sem hér eru til umfjöllunar og fara eiga til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Spurt er: Af hverju þjóðaratkvæðagreiðsla þegar um er að ræða ráðgefandi atburð sem er í sjálfu sér ekki bindandi? Af hverju ekki skoðanakönnun? Er þetta ekki einhvers konar skoðanakönnun? spyrja menn. Jú, það má að vissu leyti segja að svo sé því að þingmönnum verður að sjálfsögðu frjálst að draga eigin ályktanir af þeirri niðurstöðu sem þarna fæst. En það að hún fari fram samhliða forsetakosningum í sumar ljær henni aukna lýðræðislega vigt. Það eykur líkurnar á því að fleiri muni taka þátt í atkvæðagreiðslunni og hvetur til umræðu í samfélaginu. Hún er líka frábrugðin skoðanakönnun að því leyti til að allir geta tekið þátt, ekki bara eitthvert sérstakt úrtak eins og væri ef um skoðanakönnun væri að ræða.

Hvernig þessar spurningar eru bornar fram skiptir auðvitað miklu máli. Þær þurfa að vera þannig orðaðar og fram settar að við komumst eins nálægt vilja þjóðarinnar í þessum efnum og nokkur kostur er á. En þar sem um ráðgefandi atkvæðagreiðslu er að ræða er okkur ekki jafnþröngur stakkur skorinn og ef um bindandi atkvæðagreiðslu væri að ræða, þ.e. við höfum aukið frjálsræði til að hafa spurningarnar opnar þannig að við fáum fram því sem næst vilja þjóðarinnar í þessum efnum. Auðvitað er það svo, eins og ég sagði í andsvörum við hv. þingmann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, áðan og eins og hann sagði í ræðu sinni árið 2010, að þingmenn eru ekki bundnir af því ferli sem hér hefur farið fram og teiknað er upp. Það er að sjálfsögðu skylda þingmanna á komandi hausti að fara yfir þær tillögur sem fyrir liggja og móta afstöðu sína út frá því ferli og því samtali sem átt hefur sér stað við þjóðina og vinna í samræmi við eigin sannfæringu í þessu máli.

Það hefur verið ágætis meiri hluti fyrir framgangi þessa máls á þinginu. Hann hefur ekki eingöngu verið bundinn við hina svokölluðu stjórnarflokka, hann hefur ekki eingöngu verið bundinn við hina svokölluðu stjórnarflokka og Hreyfinguna eins og mönnum hefur verið svo tamt að halda fram í umræðunni hér í dag, heldur hefur meiri hlutinn notið stuðnings hluta Framsóknarflokksins, sem lagði til í aðdraganda kosningabaráttu sinnar árið 2009 að haldið yrði stjórnlagaþing sem yrði miklu víðtækara en það sem raunin varð. Því hefur hluti Framsóknarflokksins stutt það ferli sem hér hefur farið fram og jafnframt þingmenn sem starfa utan flokka. Ég geri ráð fyrir að þeir þingmenn muni eftir sem áður starfa áfram með stjórnarflokkunum að framgangi þessa mikilvæga máls þannig að við getum ráðið því til lykta á komandi þingi næsta vetur. Til að svo megi verða skiptir auðvitað miklu máli að það sé sagt hér og því sé haldið mjög sterkt fram í allri umræðu um þetta mál, hvort sem hún fer fram í þingsal eða í þingnefndum, að það tilboð sem hefur verið opið í þessu máli um samstarf, þverpólitískt samstarf, stendur að sjálfsögðu enn þá.

Og frekar en að menn séu að fást mikið um hvort ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram væri mun farsælla fyrir okkur að eiga hér samtal um þær grundvallarspurningar sem við viljum leggja fram í atkvæðagreiðslunni í sumar. Ég held að mestu máli skipti að þær séu þannig úr garði gerðar að þær gefi glögga mynd af vilja þjóðarinnar í þessum efnum án þess þó að hægt sé að segja að hendur þingmanna verði á einhvern hátt bundnar eða að þingmenn eða Alþingi sé að biðja þjóðina um sérstakt leyfi til að leggja málið fram. Það er ekki svo. Hér er um að ræða samtal við þjóðina sem er einstakt og á sér ekki hliðstæðu, það er rétt, en ég held og vil halda því fram að til þess verði horft um ókomna framtíð ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim.