140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan og vísaði þar í virta fræðimenn á sviði félagsvísindanna sem fjalla um hvernig maður gerir spurningalista, þá er mikilvægast af öllu að spurningarnar séu skýrar og þannig að allir sem lesi þær skilji þær á sama hátt.

Liður númer eitt er allt of flókinn og er til þess fallinn að niðurstaðan verði skökk. Þegar verið er að gera könnun sem þessa er best að valmöguleikarnir séu skýrir, já eða nei. Þá þarf að vanda sig við að skrifa texta spurningarinnar þannig að hægt sé að búa til slíka spurningu. Fólk sem vinnur að ritgerðum og stórum rannsóknarverkefnum veit að aðalhöfuðverkurinn er oft og tíðum sá að búa til spurninguna sjálfa. Ef vandað er til verka þar er hægt að fá einhverja niðurstöðu sem er nothæf, en ef það eru miklar innbyggðar skekkjur eða hætta á misskilningi og ruglingi inni í spurningunni er oft betur heima setið en af stað farið.

Hvers vegna er einfaldlega ekki spurt — nú velti ég því bara upp — viltu breyta stjórnarskrá Íslands í grundvallaratriðum? Af hverju er ekki bara spurt um það, já eða nei? Ég er ekki viss um að meiri hluti þjóðarinnar sé mjög spenntur fyrir því að kollvarpa stjórnarskránni sem við eigum. Mér þætti ágætisbyrjun að fá að vita hvort það sé það sem þjóðin vill.

Síðan væri hægt að spyrja um einstaka kafla eða atriði. En meginatriðið er það að spurningarnar eiga að vera það skýrar að sá sem þarf að svara þeim skilji þær á sama hátt og sá sem er að spyrja.