140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Fyrst örstutt um þá umræðu sem hv. þingmaður nefndi einmitt um eignarhugtakið og það hugtak sem ég notaði um vörslumann, þ.e. ríkið sem vörslumann eignar þjóðarinnar. Þessu lýsti ég ágætlega áðan en mér finnst ágætt að nefna líka tilvitnun í greinargerð með frumvarpinu til Þorgeirs Örlygssonar sem setti fyrir rúmum áratug fram þá túlkun að með setningu laga og nýtingu þeirrar auðlindar sem fiskstofnar í kringum landið eru, komi, með leyfi forseta, „ríkisvaldið fram sem vörslumaður þeirra hagsmuna, sem íslenskir ríkisborgarar eiga í hafalmenningum við landið“. Með slíkri lagasetningu sé, með leyfi forseta, „ríkisvaldið fyrst og fremst að leitast við að gegna þeirri skyldu sinni að reyna að tryggja, að nýting auðlindarinnar komi þjóðarheildinni sem mest til góða“. Þetta held ég að sé mjög skýr framsetning þegar við horfum á það hvernig við viljum skilgreina þjóðareign og hlutverk ríkisins í henni. En svo kann að vera að fólk hafi ólíkar hugmyndir um hvert hlutverk ríkisins verði svo í raun. Það mun ég ekki ræða hér.

Ég vil gjarnan svara því sem hv. þingmaður spurði sérstaklega eftir í 13. gr. frumvarpsins um forgangsrétt að aflahlutdeild. Ég vil minna á að þetta eru ekki skyldukaup. Þetta er heimild handa ríkinu, þannig að ríkið geti nýtt sér forkaupsrétt. Ef flutningur skipa fer yfir 20% aflaheimilda í þorskígildum talið frá viðkomandi byggðarlagi eða sveitarfélagi er ráðherra heimilt að neyta forkaupsréttar. Slík heimild er til staðar í gildandi lögum hjá viðkomandi sveitarfélagi en hefur mjög sjaldan verið nýtt. Ég minni á að þetta er hugsað í raun og veru sem undanþága ef ástandið er metið af slíkum alvarleika að til þess þurfi að koma. Ég vísa til þess að þetta eru ekki einhver skylduákvæði sem endilega þurfi að nýta heldur heimildarákvæði.