140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[00:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það var sannarlega málefnalegt. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi leitt hugann að því að eitthvert helsta vandamál sem við eigum við að stríða í íslensku atvinnulífi í dag sé að í kjölfar efnahagshrunsins virðast ýmsar fjármálastofnanir, og ekki síður erlendir kröfuhafar, hafa gert órýmilegar kröfur til íslenskra atvinnufyrirtækja, þ.e. að þau hafi við fjárhagslega endurskipulagningu þeirra ekki gengið nógu langt í því að afskrifa tapaðar kröfur og færa niður skuldir þessara fyrirtækja. Fyrirtækin voru skilin eftir drekkhlaðin skuldum langt umfram eðlilegt eignavirði. Ég velti fyrir mér hvort við Íslendingar eigum að horfa til þess í raun og veru að ekki megi gera eðlilegar arðsemiskröfur til þessara fyrirtækja vegna þess að þau hafi ekki verið endurskipulögð fjárhagslega með nægilega góðum hætti heldur séu skilin eftir drekkhlaðin skuldum. Þetta held ég að eigi að vera okkur öllum áhyggjuefni. Það er eðlilegt að gera arðsemiskröfur til fyrirtækja í greininni og kröfur til þess að þau sem almennt geta ekki staðist þær þurfi að fá frekari fjárhagslega endurskipulagningu og þar af leiðandi afskriftir þeirra skulda sem á þau hafa verið sett.

Þær tölur hafa verið nefndar um vel rekið fyrirtæki eins og HB Granda að það þyrfti að skila 1,6 milljörðum til almennings í formi veiðileyfagjalds af 6,2 milljarða hagnaði með þessu frumvarpi (Forseti hringir.) og ég spyr hvort hv. þingmanni finnist ósanngjarn krafa að almenningur fái einn fjórða af þeim gríðarlega hagnaði.