140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég að það sé alveg skýrt að það má ekki túlka orð mín þannig að ég sakni hæstv. ráðherra eitthvað sérstaklega [Hlátur í þingsal.] en ég tel hins vegar mjög óheppilegt fyrir framgang málsins að hæstv. ráðherra sé ekki við umræðuna. Þrátt fyrir að þess séu einhver dæmi að staðgenglar tali fyrir málum sem eru minni háttar og góð sátt um eru engin fordæmi fyrir því að risamál sé flutt, kynnt og rætt án þess að hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á þeim málaflokki tali fyrir því. Hér komu upp hin ýmsu álitamál. Hæstv. ráðherra, Katrín Jakobsdóttir, svarar samviskusamlega öllu því sem til hennar er beint og er til fyrirmyndar en við (Forseti hringir.) sem erum að hlusta á þessa umræðu vitum að hún getur eðli máls samkvæmt ekki svarað þeim spurningum sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon á að svara.