140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

verðtryggð lán Landsbankans.

[10:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að þetta hjálpar bankanum í sínum rekstri. En ef þetta verður að sama skapi til þess að ýta verðbólgunni upp með einhverjum hætti eða að bankinn auki þennan jöfnuð má velta fyrir sér hvort heimilin í landinu beri þá ekki tjónið. Ríkisvaldið heldur á eignarhaldinu á þessum banka og ætti þar af leiðandi að geta lagt honum lífsreglurnar. Stendur það til?

Ég bendi líka hæstv. ráðherra á að í dag verður dreift máli frá þingflokki framsóknarmanna þar sem meðal annars er gerð tillaga um að settar verði reglur um hámarkshlutfall veðlána í viðskiptabönkunum þannig að það sé tryggt að þessi spírall verði ekki með sama hætti og hann er í dag. Við lögðum áherslu á það í gærkvöldi þegar við vorum að ljúka þingfundi að við vonumst til að þetta mál fái afgreiðslu til nefndar þannig að hægt verði að fara (Forseti hringir.) í þessa vinnu. Frumvarpið heitir frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta.