140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:28]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða um fundarstjórn forseta af hálfu stjórnarmeirihlutans hafi í raun verið umfangsmeiri en innlegg þeirra í þetta mál fyrir þinginu á undanförnum vikum og mánuðum. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta að því hvort hún sé ekki sammála mér um að það væri eðlilegt að upphafsmaður þessa máls, sú sem hafði hvað mestan áhuga á því að hér væri kallað saman það sem fyrst átti reyndar að heita stjórnlagaþing en svo stjórnlagaráð og talar nú mjög ákveðið fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu utan þingsala, ætti kannski að koma hér og vera við umræðuna og jafnvel leggja orð í belg. Á ég þar að sjálfsögðu við hæstv. forsætisráðherra sem hefur ekki tekið til máls í þessari umræðu frá upphafi, ekki í fyrri umr. og ekki núna.

Mig minnir reyndar að í fyrra, þegar þetta mál var hér til umfjöllunar, hafi hæstv. forsætisráðherra ekki heldur tekið þátt í þeirri umræðu en engu að síður segir hæstv. forsætisráðherra að þetta sé eitt brýnasta málið sem fyrir þinginu liggur og fyrir þjóðina að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um vanbúnar tillögur stjórnlagaráðs. Þetta telur hæstv. forsætisráðherra vera afskaplega brýnt mál, hefur sett þetta á oddinn, hefur ævinlega sagt að hún hafi talað fyrir því áratugum saman að þetta sé eitt af þeim málum sem hún vilji að Alþingi afgreiði. En vill hún koma hér til þings og ræða þetta mál, lýsa sjónarmiðum sínum? Nei, virðulegi forseti, það hefur verið alger vöntun á því.

Ég held að það væri skynsamlegt, hæstv. forseti, og ég fer fram á það að gerðar verði ráðstafanir til að kanna hvort hæstv. forsætisráðherra sé í húsi og ég fer fram á það að hæstv. forsætisráðherra komi hingað til þings og verði við umræðuna. Ég hefði verulega mikinn áhuga á að heyra hvað henni finnst um einstakar spurningar sem stjórnarmeirihlutinn og meiri hluti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vill leggja núna fyrir þjóðina í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar eru álitamál sem hæstv. forsætisráðherra hlýtur að hafa miklar skoðanir á og jafnframt það, sem er auðvitað grundvallaratriði, hvaða skoðun hæstv. forsætisráðherra hafi á þeim álitamálum sem kunna að spinnast í kringum forsetakosningarnar vegna þess að menn vilja blanda saman mjög svo eðlisólíkum kosningum þegar annars vegar á að kjósa forseta lýðveldisins Íslands og á sama tíma að gera skoðanakönnun meðal þjóðarinnar um tiltekin álitamál í stjórnarskrá.

Ég held að kosningarnar í vor gætu reyndar snúist um dálítið aðra hluti en meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur reynt að sannfæra fólk um, að það sé enginn vandi og það sé reyndar þannig að það sé nánast hægt að stýra því hvað forsetaframbjóðendur ræði í aðdraganda kosninganna. Hvað viljum við að þessar kosningar snúist um? Á að ræða við forsetaframbjóðendur hvað þeim finnist um náttúruauðlindir í þjóðareign, eins og það er orðað í þessum spurningum hv. stjórnarmeirihluta? Á að spyrja um málskotsrétt forseta? Eða á að ræða til dæmis um fullveldisframsal? Um hvað eiga þessar forsetakosningar að snúast?

Hv. framsögumaður meirihlutanefndarálits, Valgerður Bjarnadóttir, hélt því fram að auðvitað snúist forsetakosningarnar ekkert um stjórnarskrármálefni. Nei, við séum bara að spyrja grundvallarspurninga. En hvernig ætla menn að koma í veg fyrir að þær geti akkúrat gert það? Hér er um algerlega óskyld mál að ræða, ólíkar kosningar að ræða, og það er óhjákvæmilegt þegar svo er og það er í rauninni verið að kjósa forseta að þarna geti orðið mikil smitun á milli.

Mig langar í upphafi áður en ég fer að greina frá sjónarmiðum okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd aðeins að minna á að það vinnulag sem hefur verið viðhaft hér við breytingar á stjórnarskrá, alveg frá upphafi 2009 þegar minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum, hefur verið eintóm sorgarsaga. Það var strax ákveðið þá um vorið, eftir þá erfiðleika sem dundu yfir þjóðina við fall bankanna, að nauðsynlegt væri að breyta stjórnarskránni. Það skyldi verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að fara í breytingar á stjórnarskránni. Það skyldi setja af stað stjórnlagaþing og það þyrfti að fara í umfangsmiklar breytingar og það skyldi gera í miklum ágreiningi. Það skyldi ekki fara þá leið, sem hafði verið farin hér áratugum saman, að reyna að leita samstöðu stjórnmálaflokka á Alþingi. Þvert á móti var nánast vilji til þess að slík samstaða væri ekki fyrir hendi og menn létu að því liggja að það væri þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aldrei viljað breyta neinu þegar kæmi að stjórnarskránni sem er rangt.

Málið var strax sett í mikið átakaferli og það hefur haldið áfram í því átakaferli allt frá þeirri stundu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur að sjálfsögðu barist hatrammlega gegn þeim fyrirætlunum sem voru á vordögum 2009 en áfram skyldi haldið á sömu ágreiningsleiðinni. Áfram valdi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að setja málið í átakafarveg og næst átti að fara í ráðgefandi stjórnlagaþing. Við höfum allar götur frá vorinu 2009 tekist á um hvernig skuli breyta stjórnarskránni. Við höfum minnst rætt um hvað og hverju þyrfti að breyta.

Þremur árum seinna, nánast upp á dag, frá því að þessi átök hófust um breytingar á stjórnarskrá er enn gríðarlegur ágreiningur um þetta mál. Ég vil gera orð eins prófessors sem kom fyrir okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að mínum þegar hann sagði að líklegasta niðurstaðan úr þessu öllu saman eða ágreiningur sem gæti hugsanlega birst um niðurstöðu þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu væri vegna þess að ekki hafi náðst nein samstaða á Alþingi um málið. Mér finnst það mjög alvarlegt mál. Látum vera í hvers konar búningi þetta mál er, hann er náttúrlega alveg fáheyrður, en að setja málið stöðugt í ágreining og raunar vilja hafa það í ágreiningi veldur manni miklum áhyggjum og er auðvitað algerlega óviðunandi.

Það hefur því miður verið einkenni á hæstv. forsætisráðherra, þótt stundum sé talað á þann hátt að það væri mjög gott ef fólk gæti náð samstöðu, að það er allt sett í ágreining, nánast hvert einasta mál. Við getum horft á núna hvernig gengur með fiskveiðistjórnarmálið. Og hvað gerðist hér í morgun? Hvað á það að þýða að hæstv. forsætisráðherra gangi svona fram gagnvart samstarfsmanni í ríkisstjórnarmeirihluta? Hvað á það að þýða? Hvað á það að þýða að koma svona fram? Hversu líklegt er að forsætisráðherra sem kýs að setja mál ævinlega í átök nái þeim árangri sem þarf að ná við stjórn landsins? Stjórnarskrármálið er birtingarmynd af þeim endalausum átökum sem hafa verið í þinginu allt frá því að bankarnir féllu og það sem verra er, stjórnarskráin á að endurspegla slík átök. Þegar að þessum málum kemur, þegar að þessum grundvallarmálum þjóðarinnar kemur eiga að gilda önnur lögmál og menn verða að vanda sig miklu betur en gert hefur verið.

Ég vil aðeins ræða áfram um það vinnulag sem hér hefur verið viðhaft og hvernig þetta hefur verið í nefndinni í vetur. Hér í umræðu um fundarstjórn forseta kom nú aðeins fram hvers konar átök hafa verið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ekki um efni málsins heldur bara nánast um samskipti fólks. Við skulum láta það allt liggja á milli hluta. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur þetta mál legið fyrir frá því í byrjun október. Ég hygg að það hafi verið 4. október eða þar um bil sem málið kom inn í þingið. Síðan hefur það verið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í allan vetur. Hvaða efnislega umræða hefur farið fram um álitamál tengd stjórnarskrá? Afar lítil. Hvað hafa menn verið að tala um? Aðferðafræði, hvað eigi að gera við tillögurnar, hvernig sé best að vinna með þær áfram. Höfum við verið að tala um hvaða álitamál væru brýnust í breytingu á stjórnarskrá? Nei, við höfum verið að ræða lauslega embætti forseta Íslands. Er spurt að því í þessari skoðanakönnun? Nei, það er ekki spurt að því. Spyrja menn stjórnskipulegra spurninga, um grundvöll þess hvernig þeir vilja haga stjórnskipun í landinu? Nei, það er ekki spurt að því heldur.

Það er ekki verið að spyrja grundvallarspurninga af þessu tagi og þær hafa heldur ekki verið ræddar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Framan af var töluvert rætt um að það væri nauðsynlegt vegna þess að tillögur stjórnlagaráðs hafa fengið töluvert mikla gagnrýni. Menn hafa sagt að þær séu innlegg í umræðu um breytingu á stjórnarskrá. Að sjálfsögðu eru þær innlegg í slíkt alveg eins og aðrar tillögur sem hafa verið til meðferðar í langan tíma í þjóðfélaginu um hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni. Sama á líka við um mjög ítarlega skýrslu stjórnlaganefndar sem var reyndar, svo ég taki það fram, nefnd sem sett var á laggirnar í samstöðu í allsherjarnefnd á vordögum 2010 og afrakstur þeirrar vinnu hefur ekki mikið verið ræddur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hreint ekki. Ekki heldur niðurstöður þjóðfundarins sem einnig var afrakstur vinnu allsherjarnefndar. Það hefur ekkert verið rætt. Það hefur heldur ekki verið rætt að þjóðfundurinn komst að allt annarri niðurstöðu í tilteknum málum en stjórnlagaráð gerði. Það hefur heldur ekki verið rætt. Við höfum rætt hvort eigi að fara í það að skoða tillögur stjórnlagaráðs út frá því hvernig einstakar greinar ynnu saman, hvernig hægt væri að koma málinu í búning en aldrei sú brýna efnislega umræða sem þarf að eiga sér stað.

Síðan gerðist það skyndilega að meiri hluti nefndarinnar taldi alveg brýnt að ljúka umræðu um málið og fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað gerðist þá? Minni hlutinn er að tefja málið, hann vill fara að ræða málið í þingsal. Hvernig stendur á því? Er minni hlutinn hræddur við þjóðina? Vill hann ekki spyrja þjóðina um það? Er það það sem við blasir? Stjórnarmeirihlutinn reynir að koma þessu inn hjá almenningi í landinu. Það er ekki rétt, það er hreint ekki rétt.

Okkar sjónarmið er að fyrsta versið sé að koma sér saman um hverju þurfi að breyta, hvernig það eigi að orðast og hvernig það eigi að líta út. Fyrst á þingið að koma sér saman um hvað það vill fá út úr hlutunum og síðan, þegar slíkri samstöðu er náð og auðvitað getur það tekið dálítinn tíma, sé eðlilegt að fara að kynna málið fyrir þjóðinni. Þetta hafa reyndar nágrannalöndin gert og hér er oft vitnað til nágrannalandanna á stundum sem það hentar. Finnar til dæmis eru mjög góðir í þessu, þeir eru mjög flinkir í því að ná samstöðu innan lands um mikil álitamál og brýn mál. Við getum tekið sem dæmi viðbrögð Finna eftir þeirra mikla efnahagslega áfall þegar þeir ákváðu að þeir þyrftu að líta til langrar framtíðar með hag landsins og unnu að því í langan tíma, í mörg ár, að skapa samstöðu og finna rétta planið til að koma Finnlandi upp úr erfiðleikunum. Það sam gilti þegar kom að breytingum á stjórnarskránni. Finnar leituðust eftir því og höfðu mikið fyrir því að ná nauðsynlegri samstöðu og niðurstaðan var auðvitað allt önnur en sá óskapnaður sem við búum við þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum. Hvaða friður verður nú um þetta? Hvaða friður verður um þetta mál? Hann verður ekki mikill.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna þá raunverulegu stöðu sem er í landinu. Hún er sú að forseti lýðveldisins hefur mjög miklar skoðanir á þessum tillögum. Hann ræddi það hér 1. október á þingsetningardaginn og hann lýsti sinni túlkun á embætti forseta Íslands. Það kom fram sjónarmið hjá fulltrúum í stjórnlagaráði að hann hefði misskilið málið, þau hefðu ekki meint þetta svona en það var engu að síður hægt að túlka það svona. Tillögurnar voru með þeim hætti að forseti og þeir sem líta málið frá þeim sjónarmiðum sem hann var að tala fyrir gátu skilið tillögurnar með þeim hætti, þær voru engan veginn nógu skýrar.

Forsetinn blandaði sér hreinlega með þessu inn í umræðu um stjórnskipunarmál. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem forseti hefur gert það. Hann er fyrsti forseti lýðveldisins sem hefur beitt málskotsrétti þjóðarinnar í þrígang og þar með í raun og veru gefið tóninn fyrir það að að óbreyttri stjórnarskrá kunni hvaða forseti sem er að gera nákvæmlega það. Finnst hv. þingmönnum og virðulegum forseta ekki líklegt að forseti lýðveldisins sem nú er í framboði enn á ný muni ræða stjórnskipunarmálin þegar kemur að kosningabaráttunni? Kann ekki vel að vera að hann, verði hann kjörinn eða einhver annar, við vitum ekki hvernig það fer, muni einnig blanda sér í þetta mál næsta vetur þegar, eftir því sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar heldur fram núna, einhverjar tillögur verða lagðar fyrir þingið til efnislegrar meðferðar? Kann það ekki að geta gerst að forsetinn synji þessum lögum staðfestingar? Kann það ekki að geta gerst? Er það útilokað? Er þetta ekki mikilvæg lagasetning? Sagði ekki virðulegur forseti lýðveldisins þegar fjölmiðlalögunum var synjað að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar? Sagði hann það ekki einnig í Icesave-málinu að þetta væri mikilvægt hagsmunamál? Er nýtt frumvarp að stjórnarskrá mikilvæg lagasetning? Skiptir máli hvernig búið er um stjórnskipunarmál? Skiptir máli eða veldur það áhyggjum ef vafi er á hvernig einstökum stoðum þar er háttað? Er forseti lýðveldisins ekki búinn að lýsa því yfir að hlutverk hans sé að vera öryggisventill? Kann það ekki að gerast að hann muni stöðva þingið í fyrirætlunum þess um að fara fram með illa ígrundaðar breytingar á stjórnarskrá? Hvers vegna hefur enginn talað um þetta? Hvers vegna hefur þetta ekki verið rætt? Hvers vegna er það svo að það á bara að tala um formlega hlið málsins á fundum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem núna virðast vera orðnir harðlokaðir og nánast má ekkert fréttast hvað þar fer fram?

Vilja alþingismenn ekki ræða þessa hluti í þingsal? Er ekki eðlilegt að fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu hafi alþingismenn tekið efnislega umræðu um þessi mál? Er ekki eðlilegt að þeir taki síðan þátt í umræðunni úti í þjóðfélaginu, lýsi skoðun sinni og sínum rökstuðningi? Er það ekki hlutverk alþingismanna? Er það ekki svo samkvæmt gildandi stjórnarskrá að það er einmitt hlutverk þeirra að setja stjórnarskipunarlögin? Hvers vegna er farið svona öfugt í þetta allt saman? Auðvitað er það vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er búin að taka ákvörðun um að það eigi að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er búið að lofa því einhvers staðar í öðrum húsum að þannig skuli það verða.

Skiptir efni málsins einhverju máli? Nei, það skiptir ekki máli. Þarf að leita samkomulags við aðra þjóðfélagshópa um þetta, aðra stjórnmálaflokka? Nei, það skiptir engu máli. Það skal bara farið með þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu af því að því hefur verið lofað í einhverju leynisamkomulagi allt á forsendum ríkisstjórnarinnar, ekki á forsendum stjórnskipunar Íslands.

Ég hlakka til þess að við förum að ræða grundvallarmál í breytingu á stjórnarskrá, ég hlakka til þeirrar umræðu þegar við förum að takast á um hvernig við viljum hafa hlutina og hvað það er sem þarf að breyta og við viljum breyta.

Eftir að forseti synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar varð ágreiningur í þáverandi stjórnarskrárnefnd um hvort ætti að gera breytingu á því ákvæði stjórnarskrárinnar. Ekki náðist samkomulag um það af því að þeir flokkar sem þá voru í stjórnarandstöðu vildu ekki breyta því ákvæði. Það kann að vera að það sé breytt núna, það kann að vera. Mér heyrðist reyndar aðeins örla á því eftir Icesave-atkvæðagreiðslurnar að menn væru tilbúnir til að gera slíkar breytingar. Spurningin er: Væri ekki fróðlegt að ræða til dæmis slíka hluti á Alþingi, tala um auðlindaákvæðið og hvað það raunverulega þýðir, hvað það raunverulega merkir? Væri það ekki líka áhugavert álitamál? (Forseti hringir.)

Væri ekki nær, virðulegi forseti, að hefja þetta mál á réttum enda í stað þess að fara alltaf öfuga leið?