140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:38]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vafalaust má ýmsu breyta í stjórnarskránni og ég legg áherslu á það sem kveðið er á um að náttúruauðlindir séu óskorað í forsjá þjóðarinnar, alveg óskorað. Það sem ég vek hins vegar sérstaka athygli á er að í stjórnarskránni nú þegar eru mörg grundvallaratriði sem allir eru sammála um en ekki hefur enn þá náðst að framfylgja. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að menn horfi til þess líka í umræðunni. Það á alveg rétt á sér að skoða og endurskoða stjórnarskrána en við skulum líka horfa á það sem ekki hefur tekist að framfylgja og spyrja okkur hvers vegna það hefur ekki náðst þrátt fyrir góð orð og góðar yfirlýsingar. Þetta snýst um forgangsröðun og ákvörðun um hana er tekin hér og þá skal Alþingi líka spyrja sig: Hvers vegna er forgangsröðunin þannig að íbúar úti um land hafa til dæmis ekki sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og íbúar á höfuðborgarsvæðinu og hún er miklu kostnaðarsamari fyrir þá o.s.frv.? Hvað er gert til að koma til móts við þá og jafna þennan mun? Það finnst mér að eigi að spyrja um.

Varðandi það hvaða leið er farin í að ræða um breytingar á stjórnarskránni þá má vafalaust fitja upp á ýmsum leiðum en við skulum líka horfa til þess að við fylgjum eftir því sem nú þegar stendur í stjórnarskrá og við viljum gjarnan og erum öll sammála um að sé framfylgt.