140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Jú, frú forseti, ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að efnahagslega gekk þetta ekki vel í Sovét og Komekon leið undir lok og allt það. Það hefur ekki heldur gengið sérstaklega vel hjá kapítalismanum, a.m.k. ekki á Íslandi undir stjórn sjálfstæðismanna. Það er kannski fleira sem hefur beðið skipbrot en hinn miðstýrði áætlunarbúskapur eystra. Eitthvað kenna Kínverjar sig við svipaða hluti og gengur sæmilega. Það er ekkert einfalt í þessum efnum [Hlátur í þingsal.] í efnahagslegu tilliti. Nú heyri ég að sjálfstæðismenn hlæja mjög, það gleður þá, það er gott að þeir hlæja þegar maður nefnir það að kapítalisminn hafi hrunið ofan í hausinn á okkur Íslendingum með skelfilegum (Gripið fram í.) kostnaði.

Þegar um sameiginlega auðlind í eigu allrar þjóðarinnar er að ræða tel ég ekki rétt að við nálgumst það þannig að tekjurnar tilheyri meira einum en öðrum. Að því tilskildu að við búum greininni góð starfsskilyrði, nægjanlegan fyrirsjáanleika og öryggi og að menn njóti þess (Forseti hringir.) sem við vorum að ræða áðan eigum við ekki að binda okkur við staðsetninguna, fyrir nú utan að það er einmitt meiningin að ráðstafa tekjum líka í gegnum þetta kerfi til landsbyggðarinnar sérstaklega.