140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Já, það er ágætt að fá þessar yfirlýsingar frá hv. þingmanni. Ég ræddi í ræðu minni í dag um að, eins og ég skil þetta, verið sé að reikna útfærsluna á veiðigjaldinu út frá einhverri heild og áætlunum um aflabrögð nánast eða tekjur. Þá velti ég fyrir mér hvaða hugmyndir hafi verið uppi um þessa gjaldtöku í ráðuneyti hv. þingmanns þegar hann var sjávarútvegsráðherra, hvort það hafi verið skoðað á þeim tíma að nota einfaldlega skattkerfið einhvern veginn, þ.e. að vera með ákveðið skattþrep fyrir þá sem eru taldir mjög aflögufærir eða þá að þegar hagnaður færi yfir eitthvað ákveðið greiddu menn skatt. Var skoðað að nota skattkjör, ekki finna upp nýtt kerfi eða nýja leið til að ná auknum gjöldum af útgerðinni?

Ég vil líka, frú forseti, nota tækifærið til að segja að þegar talað er um útgerðina hafa margir þá mynd að þar séu bara risafyrirtæki, stórfyrirtæki eins og Grandi, sem er útgerð, en líklega eru fleiri kennitölur í útgerð með lítinn rekstur en stóran. Það eru þeir aðilar sem ég hef verulegar áhyggjur af.