140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

framkvæmdaátak í vegamálum á árunum 2012--2013.

635. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggjum hér fram tillögu til þingsályktunar um sérstakt framkvæmdaátak í vegamálum á árunum 2012 og 2013. Þetta átak er hluti af efnahagstillögum okkar sem voru settar fram á haustdögum og verður að skoða þessi verkefni í samhengi við þær tillögur.

Eins og öllum er kunnugt er mjög mikilvægt að fara af stað með atvinnusköpun í samfélagi okkar og við teljum mjög nauðsynlegt að þar sé bætt í af hálfu ríkisins. Við höfum ekki sett minna fjármagn til samgöngumála í mörg, mörg ár en við gerum í dag og við teljum að óþarfi sé að skera svo mikið niður sem raun ber vitni. Við teljum eðlilegt að samhliða þessu átaki muni hefjast framkvæmdir við jarðgangagerð eins og rætt hefur verið um og þegar við reiknum út heildarkostnaðinn af þessu átaki tökum við tillit til þess að farið verði í jarðgangaverkefni samhliða því. Fjölmörg verk eru tilbúin til útboðs þannig að hægt er að fara á mjög stuttum tíma af stað í þessi verkefni. Sum var þegar búið að bjóða út árið 2008 en framkvæmdum var frestað, og öðrum verkefnum sem tilbúin voru til útboðs var slegið á frest.

Verktakaiðnaðurinn varð fyrir verulegum skakkaföllum við hrun bankanna eins og allir þekkja og ljóst er að þessar vegaframkvæmdir mundu styðja mjög við bakið á þeirri iðngrein. Samdráttur í framkvæmdum hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir verktakafyrirtæki í jarðvinnu og leitt af sér gjaldþrot fjölda fyrirtækja og fjöldauppsagnir starfsfólks á þeim vettvangi. Auk þess hefur Vegagerðin verulegar áhyggjur af því að þekking og reynsla í greininni muni líða mjög fyrir þann mikla samdrátt sem hefur orðið. Hið opinbera gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnustarfsemi, eins og ég kom inn á áðan, því að þótt það sé ekki endilega ríkisins að búa til störf eru innviðir samfélagsins eins og samgöngumannvirki á ábyrgð þess. Eins og staðan er í þjóðfélaginu núna er kjörið tækifæri til að ráðast í þessa uppbyggingu, til staðar er mikil þekking og reynsla, tækjabúnaður er heilmikill til í landinu þó að vissulega, eins og Vegagerðin hefur bent á, sé hætta á því að hann hafi að hluta til flust úr landi. Fjárfesting ýtir þjóðfélaginu af stað og bættir innviðir leiða til aukinnar framleiðni hjá fyrirtækjum og þar með aukins hagvaxtar.

Við leggjum til að á árinu 2012 verði farið í framkvæmdir fyrir 26,4 milljarða og 29,5 milljarða á næsta ári. Það þarf sérstaklega að nýta átakið til vegaframkvæmda sem auðvelda aðgengi að vinsælum ferðamannastöðum. Við sjáum mikla aukningu í ferðamannaiðnaði og sú aukning virðist ætla að halda áfram á þessu ári. Það er samdóma álit þeirra sem gerst þekkja að mjög mikilvægt sé að búa ferðamannastaði okkar betur undir aukinn straum ferðamanna auk þess sem nauðsynlegt sé að opna fyrir aðgengi að ferðamannastöðum sem er erfiðara að komast til.

Mörg þessara verkefna eru mjög brýn, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Það er mjög eðlilegt að við val þeirra og forgangsröðun á framkvæmdatímanum verði litið til eðlilegrar dreifingar á milli landshluta. Við erum með vegáætlun í gangi og þar eru verkefnin flest sem komin eru lengst í undirbúningi og þess vegna er ekki óeðlilegt að vegáætlun sé notuð til hliðsjónar við að setja þetta átak af stað.

Mikil atvinnusköpun yrði af átakinu og vil ég í því samhengi nefna að Samtök atvinnulífsins áætluðu að um 500 störf mundu skapast við þær 6 milljarða framkvæmdir í vegamálum sem ríkisstjórnin ætlaði að ganga frá á síðasta ári en ekkert hefur orðið af. Samkvæmt útreikningum okkar, og horfum við þar til þess hverju framkvæmdir sem þessar skila í skatttekjum og tökum einnig inn í einkaframkvæmd við jarðagangagerð, munu heildarútgjöld ríkisins af þessu verkefni, raunútgjöld, ekki verða nema milli 12 og 13 milljarðar. Þó að hér sé verið að tala um verkefni upp á meira en 50 milljarða í heildina verða raunútgjöld ríkissjóðs því ekki nema 12 milljarðar á þessum tíma.

Eins og ég sagði áðan er nauðsynlegt að horfa á þessa tillögu í samhengi við efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna. Í þeim var lagt til að farið yrði í mjög víðtæka atvinnu- og verðmætasköpun í samfélaginu og þetta hangir saman að því leyti, þegar horft er á tekjumöguleika ríkissjóðs, að nauðsynlegt er að stíga næstu skref í orkufrekum iðnaði og ná þeirri mikilvægu sátt um sjávarútveginn og fiskveiðistjórnarkerfið sem við erum nú að fjalla um þannig að fjárfestingar á þeim vettvangi geti farið af stað. Áætlað er að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í sjávarútvegi sé í kringum 60 milljarðar. Á árinu 2010 og 2011 námu fjárfestingar í sjávarútvegi í kringum 5 milljörðum hvort ár en áætluð þörf er talin vera í kringum 20 milljarðar. Það hefur almennt gengið vel í sjávarútvegi á síðustu tveimur árum og því er mjög bagalegt að við skulum horfa upp á það frost í fjárfestingum sem þar ríkir, þegar litið er þess hversu mikil atvinnusköpun gæti fylgt því ef hlutirnir væru í eðlilegu horfi.

Hið sama á við um orkufrekan iðnað. Þar eru ákveðin verkefni komin mjög langt í undirbúningi til dæmis hjá Landsvirkjun og ef framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar er skoðuð má sjá að reiknað var með því að framkvæmdir gætu hafist á þessu ári við þá virkjanakosti sem lengst eru komnir. Afleiðingar þess hefðu skilað sér strax inn í efnahagslífið seinni hluta ársins og af fullum þunga á næsta ári. Þar er mjög skynsamleg áætlun að mínu mati á ferðinni og það að rammaáætlun skuli ekki vera komin fram, að hún skuli vera í þeim farvegi sem hún er, í ágreiningi milli stjórnarflokkanna og innan þeirra, er mjög bagalegt.

Við horfum upp á það að hagvaxtarspár fyrir árið í ár og í raun næstu þrjú ár miðað við óbreyttar forsendur eru mjög lágar, þær hljóða kannski upp á 1,5 % og upp í 2,5% hagvöxt. Það dugar á engan hátt til til þess að koma samfélaginu upp úr þeim hjólförum sem við erum föst í. Við þurfum 4–5% hagvöxt árlega til næstu ára til að komast aftur af stað og fara að geta unnið af einhverri alvöru á því atvinnuleysi sem hér hefur skapast, og laða aftur til landsins fólkið sem hefur flutt burtu með fjölskyldur sínar til að fá vinnu erlendis.

Það er ágætisgangur í sumum greinum og ánægjulegt að sjá hvaða ferðaþjónustan hefur blómstrað, en þau verkefni sem eru í gangi og góður gangur ferðaþjónustunnar duga ekki til að draga vagninn. Myndin er því í raun mjög einföld, virðulegi forseti, þegar kemur að því hvernig við ætlum að ná vopnum okkar. Það verður að komast á sátt um sjávarútveginn þannig að eðlilegar fjárfestingar geti átt sér stað þar, það er gríðarlega mikilvægt. Við verðum að taka ákvörðun um að stíga næstu skref í orkufrekum framkvæmdum og ríkið verður á sama tíma að grípa til aukinnar uppbyggingar í innviðum. Þar eru vegaframkvæmdir nærtækastar. Hér erum við með verkefni sem á nokkrum vikum gætu skipt sköpum í atvinnulífinu og gætu komið þeim fyrirtækjum sem hafa kannski farið hvað verst út úr kreppunni og ástandinu aftur á lappirnar.