140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

skipun nefndar til að endurskoða vörugjalda- og tollalöggjöf.

386. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skipun nefndar til að endurskoða vörugjalda- og tollalöggjöf.

Einhverjir kunna að segja, og hefur reyndar verið sagt hér meðal annars af hæstv. fjármálaráðherra, að þetta séu tvö óskyld mál. Að vissu leyti hefði verið hægt að koma hér með tvö mál en þetta tengist engu að síður neytendamálum, þetta tengist frelsi í innflutningi og því að menn líti og horfi til nútímans.

Ég vil benda á að neyslumunstur okkar Íslendinga hefur á mörgum sviðum breyst mjög á umliðnum árum. Ef við lítum til dæmis á vörugjöldin þá eru þau ógegnsæ og að vissu leyti má segja að þau séu ósanngjörn. Ekki er horft til þeirra neysluhátta sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í dag á árinu 2012, miklu frekar er verið að líta til ársins 1990 eða 2000. Margt hefur breyst í tækni, í vörum og þróun síðan þá sem eðlilegt er að taka tillit til.

Ég bendi á í greinargerðinni alþekkt dæmi þessu til upplýsingar hvernig vörugjöld geta lagst mismunandi á svipaðar vörur. Til dæmis vörugjöldin á ristavélar. Á brauðristar eru hvorki lagðir tollar né vörugjöld en á hin svonefndu samlokugrill, sem eru auðvitað ekkert annað en brauðristar, bara ristað með öðrum hætti, er lagður 7,5% tollur og síðan 20% vörugjald. Ofan á þetta allt saman leggst síðan virðisaukaskatturinn frá 25,5% sem hefur náttúrlega hækkað mikið eins og annað í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Við nefnum í greinargerðinni ýmis önnur dæmi sem sýna hvað þetta kerfi í dag er afkáralegt. Mér fannst gott að heyra það í umræðum um störf þingsins að þingmenn, og þá sérstaklega Samfylkingarinnar, eru reiðubúnir til að fara yfir þessi mál. Þá er að vona að það sé ekki bara í orði heldur einnig á borði að menn fylgi þessu eftir og fari í slíka endurskoðun sem þarf á vörugjöldum.

Ég dreg tollalöggjöfina inn í þetta líka af því að tollar tengjast að hluta til þeim vörum sem ég ræddi um og vörugjöld leggjast ofan á. Ég nefndi dæmið áðan um samlokugrillin, en ég vil líka horfa á tollalöggjöfina í mun stærra samhengi. Við sjáum að vörugjöldin og tollarnir stuðla að því að stór hluti, já drjúgur hluti verslunar er að flytjast úr landi. Það er þannig að margir Íslendingar kaupa vörur sem þeir geta fengið hér heima vegna þess að þær eru hagstæðari í útlöndum og fara síðan með þær í gegnum rauða hliðið og enn borgar það sig að borga líka tolla á þeim sömu vörum.

Álagning af hálfu ríkisins er með þeim hætti að íslensk verslun er ekki samkeppnishæf við útlönd og fyrir vikið missum við að hluta til verslunina úr landi sem þýðir fækkun starfa. Þetta er þáttur sem þessi nefnd, sem á að vera skipuð fimm aðilum, fær það hlutverk að skoða. Ég læt það eftir efnahags- og viðskiptanefnd hvaða einstaklingar það verða. Ég hef lagt til ásamt flutningsmönnum að nefndin verði skipuð fulltrúum frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Bændasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu, Neytendasamtökum Íslands og fjármálaráðherra sem skipar síðan formann nefndarinnar en eflaust eru fleiri sem vel gætu átt heima í þessari nefnd.

Það er sannfæring mín að ein meginstoð utanríkisstefnu Íslands sé að stuðla að frjálsræði í viðskiptum og treysta öfluga alþjóðasamvinnu. Það sýnir sig glöggt — og sagan er nú merkileg fyrir margra hluta sakir að hún á frekar oft að vera til leiðsagnar og leiðbeiningar um það hvernig við eigum síðan að halda áfram — að okkur Íslendingum hefur ávallt farnast best þegar landið er hvað opnast fyrir viðskiptum og verslun við umheiminn. Það er því sannfæring mín að öflug utanríkisverslun sé forsenda fyrir hagsæld á Íslandi og fyrir aukinni hagsæld og teljum við því mikilvægt að haldið verði áfram á braut aukins viðskiptafrelsis. Það þýðir til að mynda ekki lengur fyrir okkur Íslendinga — við sem gerðumst aðilar að GATT-samningnum og opnuðum þar með fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum árið 1995 aðeins til að auka samkeppni á landbúnaðarmarkaði, að viðmiðið varðandi þá innflutningskvóta miðast enn við neysluna á árunum 1986–1988. Við vitum öll að neysla okkar Íslendinga, t.d. á kjúklingi, á ýmsum þáttum landbúnaðarvara hefur gjörbreyst fyrir utan náttúrlega mjög misráðnar breytingar sem hafa verið gerðar af hálfu fyrrverandi landbúnaðarráðherra og sem efnahags- og viðskiptaráðherra er síðan núna að reyna að breyta til fyrra horfs, en það er ekkert verið að gera meira. Það er ekki verið að taka neitt stærra skref í áttina að auknu frjálsræði varðandi tollamálin.

Þá segja menn gjarnan í þessu samhengi: Bíddu, ætlar þú að beita þér fyrir því að stuðla að minna matvælaöryggi og minnka landbúnaðarframleiðslu hér? Nei, það ætla ég einmitt ekki að gera, því að ég treysti því að íslenskar vörur séu ekki bara samkeppnishæfar heldur líka betri en erlendar vörur og geti vel staðið erlendri vöru snúning. Ég bendi á það sem gerðist meðal annars með frjálsum innflutningi á tómötum og gúrkum og fleira grænmeti að þá efldu íslenskir grænmetisbændur sig svo mjög að þeir juku hlutdeild sína á íslenskum markaði. Kerfinu var breytt, við fórum yfir í framleiðslustyrkina þannig að við beindum styrkjunum inn til framleiðendanna. Þeir fóru hins vegar og endurskipulögðu sig að til fyrirmyndar er í dag. Það er gaman að fylgjast með því á hversu heilbrigðan og gleðilegan hátt íslenskir grænmetisbændur nálgast þá samkeppni sem við fáum að utan og mér sýnist þeir hafa heldur betur haft yfirhöndina. Ég trúi því að hægt sé að gera það á öðrum sviðum.

Hluti af því að treysta betur alþjóðasamvinnu og frjálsræði í viðskiptum er einmitt að taka íslenska tollalöggjöf til gagngerrar endurskoðunar með það fyrir augum að afnema viðskiptahindranir og ég tel vera vel hægt að fara í slíkt verkefni. Það þarf kerfi, bæði á sviði vörugjalda en ekki síður á sviði tolla, kerfi sem allir skilja, er gegnsætt og er einfalt. Það er ekki svo nú. Þess vegna legg ég til ásamt fleiri flutningsmönnum innan Sjálfstæðisflokksins að þessi löggjöf verði endurskoðuð hið fyrsta og skipuð til þess nefnd fimm einstaklinga sem eru tilnefndir af þeim sem koma fram í þessari þingsályktunartillögu.

Ég legg til að þingsályktunartillagan verði send til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.