140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

mannréttindamál í Kína.

[15:19]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágætlega greinargóð svör. Það væri ágætt að fá upplýst við fyrsta tækifæri hvaða ráðherrar og opinberir embættismenn hafa talað þessu máli við kínversk yfirvöld. Maður heyrir ávæning af því að það hafi verið gert og það er ekki hægt að draga það í efa, en mér finnst mjög mikilvægt að þessar línur liggi alveg á hreinu.

Kínverski forsætisráðherrann kemur hingað á föstudaginn. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir er að fara til fundar við Dalai Lama í næstu viku. Það væri mjög verðugt verkefni fyrir Alþingi Íslendinga ef hún gæti haft með sér í farteskinu ályktun frá Alþingi Íslendinga um stuðning Alþingis við tíbesku þjóðina og einhvers konar fordæmingu á framferði Kínverja. Gæti ráðherrann hugsað sér að taka þátt í slíkri ályktun og styðja hana? Við munum leggja áherslu á að við fáum að minnsta kosti að mæla fyrir þingsályktunartillögu okkar á morgun eða hinn (Forseti hringir.) þó að hún nái kannski ekki fullnaðarafgreiðslu. Það er mjög mikilvægt fyrir Alþingi líka að það komi skýrt fram hver afstaða þingsins, þingflokka og þingmanna er í þessum málum.