140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[14:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér í hliðarsal mér á vinstri hönd er myndarlegur rekki sem geymir þingskjöl og dagskrárskjöl Alþingis. Þegar maður hefur litast um í þessum rekka nú í vetur og leitað eftir þingmálum ríkisstjórnarinnar hefur verið frekar tómlegt yfir að líta þangað til núna, nokkrum mínútum áður en 1. apríl rann upp. Þá gerðist það skyndilega að rekkinn fylltist, öll borð og bekkir, gluggakistur og gólf, af þingmálum sem komu hér inn á síðustu stundu. Núna standa eftir rúmlega 20 þingdagar af störfum Alþingis þar til Alþingi fer í sitt hefðbundna frí í lok næsta mánaðar.

Staðan er einfaldlega þessi: Á þessum tíma var dreift 54 þingmálum, þar af stórum frumvörpum og þingsályktunartillögum. Þetta er ekki nýnæmi í verkstjórn núverandi ríkisstjórnar og hér er hæstv. forsætisráðherra, verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Á 138. þingi voru skráð inn á þessum síðustu dögum 48 frumvörp frá ríkisstjórninni og 5 tillögur (Forseti hringir.) og í fyrra 41 frumvarp og 11 tillögur. Þetta er gjörsamlega óboðlegt, þetta kallar á vond vinnubrögð. Það er kominn tími til fyrir ríkisstjórnina að gera sér grein fyrir því að Alþingi vill (Forseti hringir.) vanda sig en ríkisstjórnin er að koma í veg fyrir að fram fari vönduð vinna við lagasetningu á þinginu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann.)