140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[14:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að full ástæða sé til að taka undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram við það verklag sem birtist okkur í því að mál hrúgast inn á síðasta degi fyrir lokafrest, 1. apríl. Það er rétt að þetta er ekki með öllu nýnæmi, þetta fer hins vegar versnandi frá ári til árs. Ef við horfum á stöðuna eins og hún er í dag er óvenjumikið af óvenjustórum og þungum og erfiðum málum að koma inn á síðustu stundu. Það setur okkur í þinginu í mjög erfiða stöðu til að vinna úr þeim með viðunandi hætti. Það er bara raunsætt að meta stöðuna þannig.

Þegar ríkisstjórn velur það að koma á síðustu stundu inn í þingið með helstu stórmál kjörtímabilsins eins og hún lýsir þeim getur hún auðvitað ekki vænst þess að þau fái öll framgang hér í þinginu. Hún getur ekki vænst þess, hún verður að reikna með að hún þurfi sjálf að forgangsraða og taka út (Forseti hringir.) mál sem ekki eru einfaldlega þannig búin að hægt sé að ljúka þeim á þeim tíma sem er til stefnu.