140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmenn vita hefur þetta mál verið töluvert lengi í undirbúningi og nokkrum sinnum rætt á þingi, m.a. í tengslum við stofnun innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins, og þá voru líka áform uppi um stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Í nefndaráliti sem þá fylgdi með kom fram að menn vildu láta skoða þetta mál frekar en gert hafði verið í þinginu. Þá hafði farið fram ýmis greiningarvinna en síðan þingið afgreiddi málið hefur enn frekari greiningarvinna farið fram og er hún að sjálfsögðu til reiðu fyrir þá nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Enn fremur hefur verið unnin ítarleg greiningarvinna, sem verður send nefndinni sem fjallar um þetta mál, að því er varðar þær breytingar sem gerðar eru á efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. (Forseti hringir.)

Ég skal svara því nánar á eftir er varðar sparnaðinn sem hv. þingmaður spurði um, en það er líka greiningarvinna sem skiptir máli í þessu.