140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hún er að verða nokkuð skrautleg saga stjórnarráðsbreytinga í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ég man ekki hvort þau eru sex eða sjö frumvörpin til breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands sem farið hafa fyrir það þing sem nú situr á þessu kjörtímabili og nú bætist við þessi tillaga, sem vissulega er, eins og ég sagði í andsvari áðan, framhald og að því leyti kannski ekki óvænt framhald af breytingum á lögum um Stjórnarráðið sem gerðar voru í september síðastliðnum. Eins og hv. þingmenn muna snerist stór hluti deilunnar þá einmitt um hvort tillaga forsætisráðherra um breytingar á skipan ráðuneyta ætti yfir höfuð að koma til þingsins eða ekki. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðum mikla áherslu á að breytingar á skipan ráðuneyta kæmu til kasta þingsins og í sjálfu sér er umræðan hér í dag afleiðing þess að við náðum þeirri kröfu fram í því ati öllu sem menn muna eftir í september. Ef við hefðum ekki staðið fast í lappirnar, stjórnarandstöðuþingmenn, í september væri ríkisstjórnin að véla um þessi mál innan sinna raða og forsætisráðherra mundi senda forseta tillögu sem hann ætti ekki annarra kosta völ en að staðfesta. Með baráttu okkar í september höfðum við alla vega þann sigur fram, ef svo má segja, að þingið fær tækifæri til að fjalla um þessi mál. Er það út af fyrir sig gott.

Ég vildi reyndar geta þess í upphafi máls míns að sú tillaga sem hér liggur fyrir er eins rýr í roðinu og hægt er miðað við tillögu af þessu tagi. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til þess að í textanum er vísað til ýmiss konar vinnu, samráðsgreinargerða, greiningarvinnu o.s.frv., með almennum hætti án þess að þau gögn séu lögð fram eða útdrættir úr þeim gögnum og eins og ég kom að áðan er auðvitað sjálfsagt að kallað verði eftir þeim á vettvangi nefndarinnar. Það mun kannski ekki flýta fyrir störfum nefndarinnar að þurfa að fara „grundigt“ yfir allar þær upplýsingar sem liggja til grundvallar þessu plaggi og hefði verið nokkur vinnusparnaður og hagræðing af því ef hæstv. forsætisráðherra hefði lagt þessi mikilvægu undirstöðugögn fram með tillögunni en það ekki geymt fram í næsta lið ferlisins ef svo má segja.

Meginbreytingarnar samkvæmt tillögunni snúa annars vegar að stöðu atvinnuvegaráðuneyta eins og fram hefur komið með sameiningu iðnaðarráðuneytis við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, auk þess sem málefni fjármálamarkaða eiga að færast þar undir, og hins vegar, sem tengist því líka, að tilteknir þættir sem varða auðlindanýtingu færast frá atvinnuvegaráðuneytum til umhverfisráðuneytis. Á hinn kantinn er breyting sem varðar skipan efnahags eða stjórnsýslu efnahags- og fjármála.

Í stuttri ræðu nær maður ekki að fara ítarlega í báða þessa þætti. Ég vildi þó aðeins nefna það sem kom líka fram í umræðunni áðan að breytingin varðandi atvinnuvegaráðuneyti og tilfærslu auðlindanýtingar til umhverfisráðuneytis var mjög umdeilt mál hér 2010. Frumvarp sem var í þá veru að stofna atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti strandaði í þinginu eins og hv. þingmenn muna og spurning hvort fylgi við þá breytingu sem slíka er meira í dag en það var á þeim tíma. Verður forvitnilegt að sjá hvort það kemur í ljós því að það var alveg kristaltært, hygg ég, sumarið 2010 að ekki var meiri hluti í þinginu þá fyrir þeirri breytingu. Þeim lið var því kippt úr frumvarpinu sem samþykkt var það ár og endaði með sameiningu dómsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis í innanríkisráðuneyti og stofnun velferðarráðuneytis úr heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti en þetta atriði, sem sneri að atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti stoppaði, í þinginu. Það var auðvitað vegna þess að svo mikil andstaða kom fram á þinginu við þá tillögu sem slíka að ekki þótti fært að fara lengra með það mál að sinni. Verður forvitnilegt að sjá hvort staðan að því leyti hefur breyst frá sumrinu 2010. Ég veit ekkert um það en ég veit að sú andstaða sem var fyrir hendi gagnvart þeirri breytingu innan míns flokks er enn til staðar og ég hygg að víða í stjórnarandstöðunni sé sú andstaða enn til staðar og jafnvel meðal sumra sem styðja ríkisstjórnina til góðra verka en ekki allra. Spurning er hvort eitthvað hefur bæst í liðsstyrk ríkisstjórnarinnar úr öðrum áttum og verður athyglisvert að fylgjast með því.

Hér er sem sagt verið að fylgja eftir gömlu máli, ef svo má segja, sem áður hefur komið til umræðu og umfjöllunar í þinginu og var raunar vikið að í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hin breytingin sem snýr að því að færa efnahagsmálin til fjármálaráðuneytis á sér ekki slíka forsögu og kemur til miklu síðar. Mér finnst verulega skorta á að það sé rökstutt hvers vegna sú stefnubreyting hefur átt sér stað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að sameina beri núna eða færa efnahagsmálin í heild undir fjármálaráðuneytið, því að ég hef tekið þátt í umræðum í þinginu hvað eftir annað, mest reyndar sumarið 2009, um hvort rétt væri að færa öll efnahagsmálin í landinu til sérstaks ráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Það voru töluverð átök um það þegar það ráðuneyti var stofnað. Þá voru efnahagsráðunautar og hagfræðingar færðir frá forsætisráðuneytinu til þess ráðuneytis og frá fjármálaráðuneytinu og nú virðist eiga að flytja þá til baka að einhverju leyti og með vöxtum kannski.

Mér finnst þetta bera vott um einhverja hringavitleysu og ég hef ekki sannfæringu fyrir því að þessi tillaga sé rétt. Það mátti deila um stofnun efnahags- og viðskiptaráðuneytisins á sínum tíma, ég hygg að sú breyting hafi að sumu leyti verið vanhugsuð, og ég er alveg tilbúinn til að koma að endurskoðun að því leyti en í þessari tillögu og þeim rökstuðningi sem henni fylgir finn ég harla fátt sem sannfærir mig um að rétt sé að stíga það skref sem hér á að gera með því að færa efnahagsmálin undir fjármálaráðuneytið. Satt að segja finnst mér fjármálaráðuneytið vera farið að taka til sín ansi mikið, ansi veigamikla þætti, og ég hef ákveðnar áhyggjur af því að það geti raskað jafnvægi að mörgu leyti. Ég tel fulla þörf á að kalla eftir þeim greinargerðum, þeirri greiningarvinnu sem á samkvæmt texta greinargerðar með þingsályktunartillögunni að sýna fram á að þetta sé til bóta. Ég er fullur efasemda gagnvart því máli, svo ég taki vægt til orða.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns kemur þessi breyting ekki á óvart, þ.e. það kemur ekki á óvart að forsætisráðherra skuli flytja þessa tillögu á þessu þingi. Auðvitað veltir maður fyrir sér af hverju þessi tillaga kom ekki fyrr fram og vísa ég þar til umræðu sem fór fram um fundarstjórn forseta fyrr í dag. Lögum um Stjórnarráðið var breytt í september og ég hygg að flestir hafi átt von á að forsætisráðherra mundi fylgja því máli eftir tiltölulega fljótlega með tillögu vegna þess að það lá auðvitað fyrir að á bak við bjuggu í september áform um frekari breytingar á Stjórnarráðinu. Með því að koma með málið hingað í lok mars, rétt fyrir 1. apríl þegar frestur til að leggja ný mál rennur út, er verið að setja það í töluvert erfiða stöðu vegna þess að möguleikarnir til að fara vel yfir það og fjöldamörg stór mál og raunar miklu stærri mál sem lögð voru fram á elleftu stundu fyrir þingið, (Forseti hringir.) og veita þeim þá athygli, umræðu og yfirferð í nefnd sem þörf krefur eru takmarkaðir (Forseti hringir.) einfaldlega vegna þess skamma tíma sem til stefnu er. Ríkisstjórnin getur (Forseti hringir.) ekki kennt neinum um það nema sjálfri sér.