140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann. Nú hefur komið fram gagnrýni á það hvernig staðið hefur verið að breytingum á Stjórnarráðinu en það eru mjög umfangsmiklar breytingar sem hér er verið að leggja til og ekki er haft neitt samráð við stjórnarandstöðuna. Hv. þingmaður nefndi réttilega að verið er að gera þetta þegar afar stutt er eftir af kjörtímabilinu. Telur hv. þingmaður að miklar líkur séu á því að þær breytingar sem hér er verið að gera verði langlífar miðað við þau vinnubrögð sem eru ástunduð?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann út í afleiðingarnar sem það getur haft fyrir efnahagskerfi okkar þegar verið er að þjappa þessu inn í eitt ráðuneyti, annars vegar fjármálaráðuneytið sem sinnir fjárlagagerð og öllu því og hins vegar efnahagsráðuneyti sem er að reyna að byggja hér upp traustan efnahag eða ætti að vera að því og stuðla að eflingu efnahagslífsins og hafa eftirlit með fjármálamörkuðum, hvort það sé ekki varasamt að blanda þessu tvennu saman inn í eitt ráðuneyti. Ástæðan fyrir því að ég spyr um þetta er yfirsýnin yfir þessi verkefni sem ég held að minnki.

Ég tjáði mig hér í dag um að ég teldi mikilvægara að styrkja efnahags- og viðskiptaráðuneytið þannig að það gæti betur sinnt þeim auknu kröfum sem gerðar eru til þess og þeim kröfum sem við gerum til efnahagsmála yfirleitt. Þess í stað er farin allt önnur leið.

Í þriðja lagi mætti velta fyrir sér í sambandi við þessar hræringar allar af hverju í ósköpunum sé ekki stigið það skref að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Ef hv. þingmaður hefur einhverja skoðun á því væri ágætt að fá hana einnig fram hér.