140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:49]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki betur en það hafi komið fram í framsögu minni að niðurstaðan sem við værum að fjalla um í þessari tillögu, t.d. varðandi breytingu á efnahagsráðuneytinu, hafi verið byggð á greiningu sem gerð hafi verið á þessu máli og á áliti starfsfólks sem hafi fjallað um málið. Auðvitað er það sjálfsagt og má vera að það eigi alveg við full rök að styðjast að þetta hefði átt að fylgja með í þingsályktunartillögunni. En það er ekkert því til fyrirstöðu að þessi greining, ásamt öðrum greiningum sem liggja fyrir varðandi atvinnuvegaráðuneytið og umhverfisráðuneytið, fari fyrir þá nefnd sem fjallar um þessi mál.

Ég vil líka undirstrika að við teljum að með þeim breytingum sem við gerum hér séum við að taka endasprettinn í því sem við byrjuðum á, og hófst þegar þessi ríkisstjórn var mynduð, að breyta Stjórnarráðinu og gera ráðuneytin sterkari. (Forseti hringir.) Við teljum að með þeim breytingum sem við gerum hér séum við komin að endapunkti á því og við séum að byggja upp mjög sterkar og öflugar stjórnsýslueiningar innan stjórnkerfisins sem muni gagnast okkur miklu betur en verið hefur.