140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég verð að viðurkenna að það er dálítið sérkennilegt að byrja ræðuna með ekki einn einasta stjórnarliða í salnum. Þeir hafa ekki verið fyrirferðarmiklir í þessari umræðu. Maður hlýtur að setja spurningarmerki við það. — Þá birtist hæstv. umhverfisráðherra og ætlar að hlusta.

Kannski þarf ekki að hafa mörg orð um hlutina í þessum inngangi því að margt hefur þegar komið fram um vegferð þess máls sem hér er rætt. Fyrir um 12 árum náðist þverpólitísk samstaða á þingi um að taka umræðuna um orkunýtingu og vatnsaflsvirkjanir út úr pólitísku þrasi og reyna að setja hana í faglegan farveg og varð það reyndin. Þá hugsuðu menn með sér að það væri skynsamlegt til að losna við pólitískt argaþras í kringum þetta verkefni.

Ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við það, virðulegi forseti, að málið skuli koma inn þegar einungis 17 dagar eru eftir af þinginu. Við erum að ræða málið í fyrri umr. og það á eftir að fara til atvinnuveganefndar þar sem kalla þarf fyrir gesti og fara yfir tillöguna. Maður spyr: Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Þetta er ekki boðlegt. Þar fyrir utan á eftir að fara yfir mjög stór og viðamikil mál sem stjórnarmeirihlutinn áætlar að klára fyrir lok þessa þings. Maður er eiginlega miður sín út af vinnubrögðunum eins og svo oft áður.

Það kom líka fram hér áðan, og er ágætt að rifja það upp, að hæstv. forsætisráðherra taldi um miðjan janúar að málið kæmi í síðasta lagi til þingsins í lok janúar. Þá getum við séð hvernig stjórnin er á þessu öllu saman þegar hæstv. forsætisráðherra telur að þetta stóra mál komi eftir einungis tvær vikur að við skulum þá vera að ræða það í lok aprílmánaðar. Það segir okkur kannski allt um þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð.

Ég vil líka taka upp það sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra. Þegar þessar breytingar á meðförum um rammaáætlunina urðu taldi hæstv. forsætisráðherra að það mundi einungis tefja þessa vinnu um að hámarki tvö ár. Niðurstaðan er síðan sú að það eru hugsanlega að lágmarki fjögur ár sem er þá helmingi lengri tími en hæstv. forsætisráðherra hélt fram í viðtölum við fjölmiðla. Það segir í raun allt sem segja þarf um þetta ferli og um heildarstjórnina á landinu því að þetta eru auðvitað gríðarlega mikilvæg verkefni í atvinnulegu og hagstjórnarlegu sjónarmiði.

En hvernig var staðið að þessari vinnu? Ég vil byrja á að þakka verkefnisstjórninni fyrir þá vinnu sem unnin var af hennar hálfu sem tók mjög langan tíma og breið sátt náðist um. Markmiðið var að sú sátt héldi þá áfram í gegnum þingið og pólitísk sátt mundi nást um niðurstöðurnar. Ég geri líka mjög alvarlegar athugasemdir við það að málið skuli vera unnið þannig að þegar því er skilað í júlí 2011 skuli vera farið í þau pólitísku hrossakaup sem gert var. Það er ekki boðlegt að hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra skuli taka fimm vatnsaflsvirkjanir út úr þeim tillögum sem koma frá verkefnisstjórninni. Nær hefði verið að málið hefði komið til þingsins eftir umsagnarferlið sem farið var í. Því lauk 11. nóvember og síðan hafa menn verið að fara yfir umsagnirnar en einungis tveir hæstv. ráðherrar komu að þeim málum í allan þennan tíma, þ.e. í fjóra mánuði, án þess að koma upplýsingum til þingsins fyrr en í þeirri mynd sem nú er. Það gefur augaleið að þetta eru óásættanleg vinnubrögð. Það hefði verið nær að það kæmi beint til þingsins þannig að hægt væri að fara yfir það í þinginu. Ég hlýt að spyrja hvort atvinnuveganefnd muni senda tillöguna til umsagnar, vegna þeirra breytinga sem orðið hafa, og hvernig verði staðið að því.

Mig langar aðeins að fara yfir það hvernig verkefnisstjórnin vann. Það er gert þannig, og mjög mikilvægt að það komi fram, að skipaðir eru fjórir faghópar til að fara yfir hvern virkjunarkost fyrir sig. Þar er verið að fjalla um náttúru og menningarminjar, það er verið að fjalla um landslag og jarðmyndanir og svo koll af kolli, þjóðfélagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og margt fleira. Þessu var skipt niður í fjóra faghópa þannig að vinna verkefnisstjórnarinnar var vönduð.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég hefði hugsanlega viljað ganga lengra í að skoða ákveðnar leiðir, hvort heldur sem það snýr að biðflokknum eða framkvæmdum. Reynt var að hefja þessi mál upp yfir pólitískt þras þannig að rammaáætlunin væri ekki að breytast eftir því hvaða flokkar væru í ríkisstjórn á hverjum tíma og sátt náðist um það. En þá var það kjarni málsins, og færð voru fyrir því rök, að á fjögurra eða sex ára fresti mætti gera breytingar í staðinn fyrir að vera að hringla með þetta endalaust og ævarandi. Því miður virðist það markmið ekki ætla að takast vegna þess að þessir tveir hæstv. ráðherrar fara inn í þetta með það að markmiði að semja um niðurstöðuna áður en komið er með málið til þingsins. Það er mjög bagalegt.

Við vitum hvernig staðan er: Sumir vilja ganga lengra, aðrir vilja ganga skemmra. Þess vegna er mjög mikilvægt eftir þessa faglegu og vönduðu vinnu, sem hefur kostað mikinn tíma og háar fjárhæðir, að samkomulag náist milli stjórnvalda og Alþingis um að virða það svo að ekki væri sí og æ verið að gera breytingar á þessu. Markmiðið sem upphaflega var stefnt að, sem öll vinnan miðaðist við, gengur ekki eftir.

Ekki þarf annað en að horfa til viðbragða þeirra sem hafa kannski mest fjallað um orkumál og vinna við þau þegar þessi þingsályktunartillaga er kynnt. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, lét til dæmis hafa eftir sér í fjölmiðlum að rammaáætlun mundi ekki lifa þessa ríkisstjórn af ef niðurstaðan yrði flokkspólitísk. En það er einmitt það sem menn bundu vonir við þegar farið var í þessa vegferð að málið yrði, með þessari vönduðu vinnu, tekið út fyrir hið svokallaða pólitískt argaþras.

Virðulegi forseti. Þar sem tími minn er á þrotum mun ég þurfa að koma hingað aftur og ræða önnur atriði. Ég vil nota síðustu sekúndurnar í að fara aðeins yfir það sem gerist í neðri hluta Þjórsár. Hvað hefur komið nýtt fram þar? Þá getur maður líka velt því fyrir sér hver staðan væri ef ríkisstjórnarsamstarfið væri með öðrum hætti. Ef þetta hefði verið niðurstaða rammaáætlunar og síðan hefði sú ríkisstjórn kannski tekið ákvörðun um að taka frekar úr verndarflokkunum og setja inn í nýtingarflokkana. Þá er ég ansi hræddur um að margir hv. þingmenn stæðu hér á garginu og bentu á að það væri ekkert annað en stóriðjustefna og þar fram eftir götunum. Þeir mundu þá gera alvarlegar athugasemdir við að ekki væri unnið eftir samkomulaginu sem gert var um að leggja í þessa vegferð. Ef ekki verður breyting á þessu í meðförum þingsins sýnist mér að þessi áætlun muni ekki ganga eftir eins og upphaflega var ætlast til. Og það er mjög miður.