140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:02]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að koma til landsins þannig að ég var því miður ekki viðstödd umræðuna um þetta mikilvæga mál á föstudaginn og missti því af ýmsum sjónarmiðum sem þar komu fram. Sumt af því sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði hér rímar við það sem einmitt var sagt í fyrstu lotu í umræðu málsins síðastliðinn miðvikudag.

Í fyrsta lagi um það hvað það hafi skapað óskaplega mikið tjón að rammaáætlun hafi tekið tíma vegna þess að allt væri farið á blússandi siglingu ef hún hefði komið fram fyrr. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé í raun og veru í takt við raunveruleikann. Er ekki svo til dæmis varðandi virkjanir sem nú þegar liggja á borðinu og ekki er verið að bíða eftir sérstaklega, Búðarhálsvirkjun, raforka frá Þeistareykjum, að fjármögnun hefur komið í veg fyrir að þessi verkefni hafi farið jafnhratt fram eins og ætlun stóð til? Erum við ekki svolítið að segja hálfa söguna og jafnvel minna en það þegar öllu hér er kennt um að rammaáætlun hafi, einmitt á faglegum forsendum, tekið sinn tíma vegna þess að þetta eru gríðarlega margir virkjunarkostir sem taka tíma og íhugun og yfirferð?

Varðandi umsagnarferlið, þ.e. það umsagnarferli sem ráðherrarnir tveir áttu lögum samkvæmt að setja málið í, þá vil ég spyrja hv. þingmann: Er það ekki eðli umsagnarferlis að það eigi einmitt að lesa af vandvirkni og kostgæfni þær umsagnir sem berast og taka tillit til þeirra þar sem tilefni þykir til, í stað þess að þetta sé eitthvert sýndarmennskuferli sem þingið og þar meðtalinn, hygg ég, hv. þingmaður eða að minnsta kosti hans þingflokkur samþykkti að svona væru lögin og ráðherrarnir eru að fara eftir lögunum? Á ekki umsagnarferli að hafa (Forseti hringir.) einhverja þýðingu?