140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hér í dag er, ef svo má segja, þriðja lota þessarar fyrri umr. um rammaáætlun, hefur verið ítarleg og komið inn á marga þætti. Ég ætla svo sem ekki að lengja hana til mikilla muna en ætla þó að láta í ljósi nokkur sjónarmið í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi tek ég undir það sem hér hefur verið sagt, að sú vinnuáætlun og það vinnulag sem lengi var fylgt í sambandi við undirbúning rammaáætlunar var ákveðin og merkileg tilraun til að reyna að byggja víðtæka sátt um flokkun virkjunarkosta og þar með um vernd náttúrusvæða sem undir öðrum kringumstæðum gætu verið virkjunarkostir. Þetta er mjög merkileg tilraun. Sú vinna sem lagt hefur verið í á undanförnum árum í þessu sambandi skiptir máli og er mikilvæg.

Ég tel að sú niðurstaða sem verkefnisstjórn skilaði á síðasta ári hafi líka verið merkileg. Ég get fallist á sjónarmið sem komu fram undir umræðunni áðan um að hún er kannski ekki að öllu leyti fagleg en hún felur í sér ákveðna málamiðlun milli sjónarmiða. Ég álít að það hafi verið tilgangur okkar með því að leggja í vegferð með rammaáætlun að finna ákveðna málamiðlun, reyna að byggja sátt sem gæti haldið nokkurn veginn til lengri tíma í þessum efnum þannig að ekki ættu sér stað stöðug átök frá einum tíma til annars um þá kosti sem ætti að fara út í nýtingu á.

Ég held að sú niðurstaða sem verkefnisstjórn skilaði af sér hafi með vissum hætti falið í sér ákveðna málamiðlun. Það liggur auðvitað fyrir að ekki voru allir ánægðir með þá niðurstöðu. Margir sem hafa svona til einföldunar verið kallaðir virkjunarsinnar voru óánægðir með niðurstöðu þeirrar flokkunar sem þar kemur fram. Hið sama á við um ýmsa svonefnda friðunar- eða verndarsinna. Það voru ekki allir ánægðir. Kannski voru fæstir alveg fullkomlega sáttir en þarna var um ákveðna málamiðlun að ræða.

Það sem gerist síðan í kjölfarið er, eins og rakið hefur verið í þessari umræðu, að ákveðnu jafnvægi sem kom út úr verkefnisstjórninni hefur verið raskað samkvæmt ákvörðun þeirra tveggja ráðherra sem bera ábyrgð á þeirri tillögu sem var lögð fram í þinginu. Það er auðvitað um leið á ábyrgð þeirra þingflokka sem á bak við þá standa og hafa fjallað um þessa tillögu og samþykkt að hún skyldi flutt sem stjórnartillaga. Jafnvægið hefur raskast með þeim hætti að ákveðnir virkjunarkostir, sem við getum kallað svo, hafa verið fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk og þar af leiðandi hefur orðið töluverð seinkun á ferlinu varðandi þá. Við skulum ekki segja að ráðið sé lyktum þeirra mála sem þar um ræðir en að minnsta kosti verður seinkun. Þá má nefna ýmsa kosti, en það sem ég horfi helst á í þessu sambandi eru virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár sem í mínum huga eru ótvírætt með hagkvæmustu kostum sem völ er á í sambandi við virkjanir hér á landi og um leið kostir sem, að því er virðist af undanfarandi umræðum og rannsóknum, leiða til mun minni skaðlegra umhverfisáhrifa en margir aðrir kostir sem við erum með á lista fyrir framan okkur.

Ég horfi sem sagt þannig á að þó að niðurstöður verkefnisstjórnar hafi ekki verið fullkomnar hafi þær falið í sér ákveðna málamiðlun, tilraun til að sætta sjónarmið sem við getum til einföldunar kallað sjónarmið friðunarsinna og virkjunarsinna. Því jafnvægi hefur verið raskað að því er virðist til þess að auka friðinn um þessar tillögur innan ríkisstjórnarflokkanna.

Ég held að það sé ekkert sérstakt leyndarmál að ástæða þess að þessi þingsályktunartillaga leit dagsins ljós svona seint á þessu þingi hafi verið sú að málið var óafgreitt og óútkljáð í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna fram eftir vori. Það var ekki fyrr en í lok mars sem náðist niðurstaða sem hægt var að leggja fram. Með öðrum orðum er þessi tillaga málamiðlun og tilraun til sáttar innan tveggja stjórnmálaflokka, í staðinn fyrir að vera tilraun til sáttar eða málamiðlunar á miklu breiðari grundvelli.

Eins og margir hv. þingmenn hafa rakið í þessum umræðum gerir það það að verkum að þessi tillaga verður umdeildari en ella og nái hún fram að ganga eru meiri líkur á því að frá henni verði vikið breytist hlutföll á Alþingi. Þar með er horfinn stór eða töluverður hluti þess ávinnings sem átti að ná fram með vinnu við rammaáætlun.

Ég tek fram að auðvitað er ekki allt unnið fyrir gýg. Vinnan sem átt hefur sér stað og umræðurnar færa okkur hráefni, eitthvað til að moða úr á komandi árum. En aðilar úr atvinnulífinu og þeim geirum sem starfa á þessu sviði, þá er ég til dæmis að hugsa um ummæli Rannveigar Rist og Harðar Arnarsonar fyrr í vor á málþingi Verkfræðingafélagsins og fleiri ummæli sem fallið hafa í þessari umræðu, hafa sagt að með því að leggja þessa áherslu á hina pólitísku sátt innan og milli stjórnarflokkanna, og draga þar með hugsanlega úr breiðari sátt sem ég hygg að hefði verið möguleg eftir niðurstöður verkefnisstjórnarinnar, eru líkur til þess að lífdagar þessarar rammaáætlunar verði skemmri en ella. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði á umræddu þingi verkfræðinga að rammaáætlun mundi varla lifa þessa ríkisstjórn af en það var auðvitað ekki tilgangurinn. Tilgangurinn var sá að byggja stefnumörkun til lengri tíma og hún hlýtur meðal annars að fela í sér tilraun til víðtækrar málamiðlunar. Þeirri málamiðlun, þeirri sátt, hefur verið raskað.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, taka fram af því að umræður um þessi mál hafa mikla tilhneigingu til að detta í skotgrafahernað þar sem mönnum er stillt upp annars vegar sem eindregnum verndunarsinnum sem ekki mega hugsa sér að nokkurs staðar sé stungið niður skóflu í landinu og hins vegar virkjunarsinnum sem vilji vaða með stórvirkar vinnuvélar á helstu náttúruundur landsins að auðvitað er það ekki svo. Ég hygg að við séum flest einhvers staðar þarna mitt á milli. Við hljótum flest að hugsa til þess að áframhaldandi uppbygging megi eiga sér stað á þessum mikilvægu sviðum orkunnar þar sem tvímælalaust er um að ræða eina helstu auðlind landsins. Á sama tíma hljótum við líka að vilja standa vörð um náttúruna og þau náttúruverðmæti sem fyrir hendi eru í okkar landi. Við viljum flest leita einhvers konar málamiðlunar í þessu sambandi. Við hefðum átt að nýta okkur niðurstöður vinnu rammaáætlunarinnar, verkefnisstjórnar og þá vinnu sem unnin hefur verið á fyrri stigum til að byggja slíka málamiðlun líka í þinginu. Því miður sýnist mér að sá halli sem er á þessu í tillögu ráðherranna tveggja valdi því að það sé lengra í þá sátt en ella hefði getað orðið.