140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um þetta má náttúrlega alltaf deila. Ég er ekki sammála hv. þingmanni og ekki heldur fjárlagaskrifstofunni hvað þetta snertir. Ég held nefnilega að við séum að gera þetta akkúrat rétt.

Fyrst þurfum við að sjálfsögðu að fá að vita vilja Alþingis. Ætlar Alþingi að breyta lögunum að þessu leyti? Ég tel að það ráðist ekki af peningalegum forsendum einvörðungu. Sá fjárhagslegi ávinningur sem við gætum haft af þessu og ég tel að muni hljótast, byggir alltaf á líkindareikningi. Hann kemur alltaf til með að gera það.

Ég tel hina eðlilegu röð vera þessa: Við fáum fram vilja löggjafans. Við gefum okkur góðan tíma til undirbúnings en lögin tækju ekki gildi fyrr en í ársbyrjun 2015. Þegar er starfandi samráðsvettvangur þar sem lögreglustjórarnir í landinu, sýslumennirnir í landinu og Landssamband lögreglumanna hafa komið að málum til undirbúnings. Þróunarskrifstofa innanríkisráðuneytisins hefur verið með verkefnið til skoðunar og tillögugerðar inn á þennan samráðsvettvang. Ef Alþingi síðan samþykkir lögin setjum við þetta í markvissari farveg. Þessi farvegur hefur verið mótaður og þetta samráðsferli. Við gerum ekkert nema í samstarfi við lögreglustjórana í landinu, við sýslumennina í landinu, þeirra samtök og Landssamband lögreglumanna.

Síðan eru ýmsir þættir sem koma til með að kosta peninga. Ég nefni biðlaunakostnað, ég nefni lífeyriskostnað, sá kostnaður gæti orðið talsverður og hann munum við færa inn í umræðuna þegar við tökum málið til afgreiðslu, vonandi síðar á þessu ári. Þá þurfum við að taka þá umræðu en við þurfum jafnframt að hafa vilja Alþingis á kláru um hvað við viljum gera í þessum efnum. Heilbrigð skynsemi segir mér að þetta muni spara okkur (Forseti hringir.) umtalsverða fjármuni en ofar öllu munum við gera löggæsluna í landinu markvissari og betri.