140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði.

Frumvarp þetta til nýrra laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði er samið í innanríkisráðuneytinu og er lagt til að það komi í stað laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Hér er um heildarendurskoðun laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði að ræða og er með frumvarpinu lagt til að sýslumannsembættin í landinu verði átta í stað 24 eins og nú er. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum er varðar fyrst og fremst breytingar á skipan lögreglumála utan höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness. Í því frumvarpi er lagt til að löggæsla verði skilin frá starfsemi sýslumanna og stofnuð sex ný sjálfstæð lögregluembætti, sem verða því átta alls. Óhjákvæmilegt er að saman fari endurskipulagning á skipan sýslumannsembætta í landinu og breytingar á skipan lögreglumála. Frumvarp þetta er í veigamiklum atriðum efnislega samhljóða tillögum sem settar voru fram í skýrslu sem Þorleifur Pálsson, fyrrverandi sýslumaður, samdi á árinu 2010 að beiðni ráðuneytisins og fjallaði um tillögur að breytingum á skipan sýslumannsembætta í landinu.

Sýslumannsembættin eru gamalgrónar og traustar stjórnsýslu- og þjónustustofnanir sem gegna og hafa gegnt mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Núverandi umdæmaskipan sýslumanna hefur um langa tíð verið óbreytt. Fram á tíunda áratug síðustu aldar fóru sýslumenn utan Reykjavíkur með lögreglustjórn, dómsvald á lægra dómstigi, önnuðust innheimtu opinberra gjalda, voru umboðsmenn fyrir Tryggingastofnun ríkisins auk hinna hefðbundnu verkefna sýslumanna. Að auki voru sýslumenn lengst af oddvitar sýslunefnda í sýslum landsins. Á síðustu rúmum tveimur áratugum hafa orðið verulegar breytingar á starfsemi sýslumanna og er þeirra helstu getið í greinargerð með frumvarpinu.

Ýmsar ástæður liggja til grundvallar þeirri endurskoðun sem þetta frumvarp felur í sér. Í fyrsta lagi kalla breytingar á skipan lögreglumála á að endurskoðun á starfsemi sýslumanna fari fram.

Í öðru lagi má nefna að byggðaþróun og bættar samgöngur hafa breytt forsendum fyrir þeirri umdæmaskiptingu sem verið hefur við lýði í tímans rás. Bættar samgöngur í öllum landshlutum hafa gert að verkum að vegalengdir hafa styst innan svæða. Má þar t.d. nefna tilkomu jarðganga á Vestfjörðum og Norðurlandi.

Í þriðja lagi hefur staðbundin stjórnsýsla ríkis og sveitarfélaga tekið breytingum á umliðnum árum. Síðustu árin hefur öll þróun á sviði sveitarstjórnarmála verið í þá átt að fækka sveitarfélögum í landinu, sameina þau og gera þau öflugri stjórnsýslueiningar. Þegar sýslunefndir voru lagðar niður 1986 voru sveitarfélög hér á landi yfir 200 talsins, en eru í dag 75 og má gera ráð fyrir að þeim muni fækka enn á komandi árum. Eðlilegt er að stjórnsýsla ríkisins í héraði fylgi þessari þróun enda eiga hér sömu sjónarmið við í flestum tilfellum.

Í fjórða lagi er ný samskiptatækni og rafræn tækni mikill hvati að margvíslegum breytingum sem eru að eiga sér stað á opinberri stjórnsýslu og þjónustu. Má til dæmis nefna að í samstarfi innanríkisráðuneytisins, Þjóðskrár Íslands, sýslumanna og fjármálastofnana er nú unnið að mótun og innleiðingu rafræns þinglýsingakerfis. Þá er mikil áhersla lögð á að bæta og þróa öll starfs- og upplýsingakerfi sýslumanna þannig að þau mæti sem best þörfum rafrænnar stjórnsýslu og upplýsingamála og feli um leið í sér ákveðna gagnvirkni.

Í fimmta lagi hafa verið gerðar miklar kröfur um hagræðingu í opinberum rekstri á umliðnum árum og eru sýslumannsembættin þar ekki undanskilin. Á síðustu árum hafa heildarfjárveitingar til embættanna lækkað verulega að raungildi. Óhjákvæmilegt er að bregðast við þessari þróun með hagræðingu og skipulagsbreytingum um leið og leitast er við að vernda þá grunnþjónustu og meginstarfsemi sem sýslumönnum er ætlað að sinna.

Væntingar okkar í innanríkisráðuneytinu eru að með frumvarpinu, sem hefur verið unnið í nánu og góðu samstarfi við sýslumannsembættin, og með fækkun og stækkun embættanna verði hin nýju embætti öflugri og betur í stakk búin til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem þeim eru falin.

Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru eins og áður sagði þær að sýslumannsembættum verður fækkað úr 24 í átta. Stjórnsýsluumdæmin verði Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland, Suðurnes og höfuðborgarsvæðið. Þetta er sama umdæmaskipting og lagt er til að gildi fyrir löggæsluna í landinu. Með þessari svæðaskiptingu er horft til þeirra svæða sem stefnumótunarskjalið Ísland 20/20 skilgreinir og sóknaráætlanir landshluta byggjast á. Lagt er til að ráðherra ákveði þau með reglugerð að höfðu samráði við einstaka sýslumenn og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar verði ákveðið hvaða sveitarfélög tilheyra hverju hinna nýju sýslumannsumdæma, en eðlilegt er í því sambandi að horfa til þeirra svæða sem sóknaráætlanir landshluta byggjast á eins og áður sagði. Með sameiningu sýslumannsembættanna verða til öflugri þjónustustofnanir sem standa betur að vígi til þess að sinna hlutverki sínu og taka að sér aukin verkefni.

Í 3. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um skipan og hæfisskilyrði sýslumanna. Var farin sú leið að tilgreina hæfisskilyrðin í ákvæðinu og var meðal annars horft til dómstólalaganna varðandi það. Einnig er í 3. gr. frumvarpsins að finna ákvæði um að ef sýslumanni er veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða ef viðkomandi forfallast frá störfum af öðrum ástæðum geti ráðherra falið öðrum sýslumanni að gegna embættinu til allt að eins árs í senn og að kjararáð ákveði þóknun vegna þess. Er hér einkum um að ræða þau tilvik þegar sýslumaður fær lausn frá starfi vegna aldurs en ekki hefur verið skipaður annar í hans stað.

Í ákvæðinu er einnig tekið fram ráðherra geti ákveðið að sýslumaður eða fulltrúi hans geti tekið að sér embættisverk annars sýslumanns, er átt við tiltekin og afmörkuð verkefni, t.d. að framkvæma hjónavígslur í öðru umdæmi. Einnig mætti færa verkefni til með þessum hætti vegna mikils tímabundins álags.

Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra geti falið sýslumanni framkvæmd tiltekinna sérverkefna og að tilteknu embætti sýslumanns verði falin verkefni sem annars ættu undir önnur embætti sýslumanna eða ráðuneytið og undirstofnanir þess. Nú þegar hefur mörgum embættum verið falið að fara með slík verkefni en þó það hafi ekki þótt yfir vafa hafið að ráðherra hafi verið heimilt að fela sýslumönnum að fara með slík verkefni að breyttum lögum þar um þykir rétt að leggja til að slíkt ákvæði verði lögfest. Enn fremur er lagt til í ákvæðinu að taki sýslumenn við verkefnum annarra ríkisstofnana eða stjórnvalda, t.d. með samningi, skuli það borið undir ráðherra til samþykktar. Er hér meðal annars átt við umboðsstörf fyrir Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingar Íslands. Þá hafa sýslumannsembættin einnig tekið að sér innheimtu gjalda eða bókhald fyrir tiltekin opinber embætti og stofnanir.

Í 5. gr. frumvarpsins er ákvæði sem lýtur að því að sýslumenn beri faglega, fjárhagslega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri embætta sinna í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Sýslumaður ráði starfslið við embætti sitt og honum sé heimilt að ákveða að löglærður fulltrúi hans sé staðgengill hans og sinni embættisverkum í fjarveru hans í sumarleyfum og styttri leyfum enda fullnægi hann skilyrðum til skipunar í embætti sýslumanns. Gert er ráð fyrir að þetta ákvæði komi ekki í veg fyrir að ráðherra sé heimilt að setja í embætti sýslumanns í fjarveru hans samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í 6. gr. er að finna ákvæði um að starfs- og upplýsingakerfi sýslumanna skuli vera miðlæg og í þau megi sækja nauðsynlegar upplýsingar. Gert er ráð fyrir að við þróun kerfanna skuli miðað við að efla rafræna þjónustu embættanna á sem flestum sviðum. Lagt er til að með þessu verði rafræn stjórnsýsla efld á þann hátt að í framtíðinni geta þeir sem þurfa að leita þjónustu sýslumanns gert það með rafrænum hætti.

Í 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að sýslumenn tilnefni úr sínum hópi nefnd þriggja sýslumanna sem vinni með ráðuneytinu að stefnumótun fyrir embættin í heild og geri tillögur um það sem geti orðið til úrbóta í störfum sýslumanna eða löggjöf sem um verkefni þeirra gildir, og að vinna að sameiginlegum verkefnum sýslumanna.

Þá er gert ráð fyrir því í 8. gr. frumvarpsins að í hverju umdæmi sýslumanns skuli starfa samstarfsnefnd sýslumanns, lögreglustjóra og sveitarfélaga í viðkomandi umdæmi um málefni þeirra undir formennsku sýslumanns. Er hlutverk nefndarinnar meðal annars að fjalla um og samræma opinbera þjónustu eftir því sem við getur átt. Sem dæmi um mál sem nefndin getur átt sameignleg er útgáfa skemmtanaleyfa og annarra leyfa sem nefndarmenn koma að starfs síns vegna. Einnig má nefna málefni barna og ungmenna sem nefndarmenn koma að með ólíkum hætti.

Í 9. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um að sé óskað eftir þjónustu sýslumanna utan hefðbundins vinnutíma á starfsstöðvum þeirra og ekki er kveðið á um það í lögum að sýslumanni sé skylt að sinna slíkum verkum á þeim tíma eða stað sé sýslumanni heimilt að verða við beiðni þar um, enda sér greitt fyrir þjónustuna á grundvelli tímagjalds samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að viðbættu akstursgjaldi. Er gert ráð fyrir að gjald fyrir slíka þjónustu renni óskipt til viðkomandi embættis. Hafa hjónavígslur verið nefndar í þessu sambandi en í sumum umdæmum hefur verið vinsælt hjá hjónaefnum að vera gefin saman úti í náttúrunni, jafnvel uppi á jöklum, undir Seljalandsfossi eða öðrum þeim stöðum sem ekki eru aðgengilegir og utan hefðbundins vinnutíma.

Í frumvarpinu er að finna bráðabirgðaákvæði sem meðal annars taka á starfsmannamálum embættanna og áunnum réttindum þeirra og taka þau bæði til sýslumanna og starfsmanna þeirra. Einnig eru bráðabirgðaákvæði um að ráðherra sé heimilt að hefja undirbúning að stofnun nýrra sýslumannsembætta, m.a. með setningu reglugerða um skipulag allra embætta sýslumanna samkvæmt 2. gr. frumvarpsins.

Þá er í bráðabirgðaákvæðum með frumvarpinu að finna ákvæði um að ráðherra geti sameinað einstök embætti í samræmi við 2. gr. frumvarpsins sé slíkt unnt. Einnig að ráðherra geti með reglugerð falið sýslumanni að gegna öðru eða öðrum embættum ásamt eigin embætti í samræmi við 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins og gildandi lög um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2015. Hér er um að ræða mjög umfangsmikla skipulagsbreytingu á embættum sýslumanna. Verða eldri embætti lögð niður og ný stofnuð, sýslumenn skipaðir í hin nýju embætti, unnið að starfsmannamálum embættanna auk reglugerðarvinnu og þarf góðan tíma til að vinna að þeim málum svo vel takist til.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.