140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur verið sakfelldur í landsdómi fyrir brot á stjórnarskrá Íslands. Eins og fram kemur í dómnum er þetta alvarlegt brot en ekki formbrot. Við getum svo deilt um það í pólitískum tilgangi hvort um alvarlegasta brotið sem ákært var fyrir sé að ræða eða ekki en það sem slíkt skiptir kannski litlu máli. Það sem skiptir máli, frú forseti, er að Alþingi og stjórnsýslan og stjórnmálin skilji og viðurkenni að hér er einnig um mikinn áfellisdóm að ræða hvað þessa aðila varðar og þá stjórnmálamenningu sem viðgengist hefur á Íslandi undanfarna áratugi. Það er skylda Alþingis að bregðast við og tryggja að þetta gerist ekki aftur.

Fyrsta skrefið er að taka upp nýsamþykkt lög um Stjórnarráð Íslands sem samþykkt voru á síðasta þingi og fara í kringum nánast allar ráðleggingar sem lagðar voru til í þeim fjórum skýrslum sem höfundar frumvarpsins sögðust hafa til hliðsjónar. Í þeim lögum var gagnsæi hafnað af núverandi stjórnarmeirihluta og því var líka hafnað að rita og birta fundargerðir ríkisstjórnarinnar svo fátt eitt sé nefnt. Upplýsingalögin sem verið er að vinna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd núna verður líka að skoða með hliðsjón af þessum dómi. Endurskoðun laganna um Stjórnarráðið og vönduð upplýsingalög eru þó bara fyrsta skrefið ef einhvern tíma á að takast að endurreisa trúverðugleika Alþingis og stjórnmálanna á Íslandi og það veltur því mikið á okkur í þinginu að við tökum höndum saman og viðurkennum og skiljum að hér þarf að gera mikla bragarbót á og því fyrr sem við byrjum því betra því að við berum einfaldlega ábyrgð á framtíð lýðræðisins í þessu landi hvað þetta varðar.