140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[13:55]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru ekki mjög skýr svör varðandi framtíðarsýn Framsóknar þegar við erum ekki búin að hætta við aðildarumsóknina heldur leggja hana til hliðar, en það er víst stefna Framsóknar. Í framhaldi af því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki hræddur um að við munum halda áfram að ræða óraunhæfar lausnir Samfylkingarinnar ef við ýtum bara umsókninni til hliðar í einhver ár.

Ég er þeirrar skoðunar að setja þurfi í þjóðaratkvæðagreiðslu ákvörðunina um það hvort við eigum að halda áfram þessum aðildarviðræðum og að sú þjóðaratkvæðagreiðsla þurfi að fara fram á þessu ári til að þjóðin geti sagt hug sinn til þeirra tafa sem hafa orðið á umsagnarferlinu. Þjóðinni var lofað ásamt þingheimi að umsóknarferlið mundi ekki taka nema eitt og hálft ár. Það er búið að taka þrjú ár og mun sennilega taka a.m.k. þrjú ár í viðbót. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að við sendum inn umsóknina höfum við ekki gert neitt annað en að ræða lausnir Samfylkingarinnar á efnahagsvanda þjóðarinnar, lausnir sem eru algjörlega óraunhæfar og munu ekki standa okkur til boða fyrr en einhvern tímann í framtíðinni.

Því spyr ég: Er það ekki svolítið veik stefna að ætla bara að ýta umsókninni til hliðar og eiga á hættu á sama tíma að endalaust sé verið að ræða óraunhæfar lausnir á vanda okkar? (HöskÞ: Það breytist.)