140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:05]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi plan B er það einfaldlega eins og ég sagði, ég tel ábyrgðarlaust að vera ekki með plan B í handraðanum vegna þess að ekki eru líkur á að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Vonandi fara ríkisstjórnin og utanríkisráðherra af stað með einhverjar hugleiðingar í þá veru en eins og ég sagði í ræðu minni væri annað ábyrgðarlaust.

Hreyfingin hefur aldrei átt í neinum leyniviðræðum við ríkisstjórn Íslands. Við áttum í viðræðum við oddvita hennar milli jóla og nýárs, yfir tveggja daga tímabil, og þegar þeim viðræðum lauk án árangurs, algjörlega án árangurs, sendum við strax í kjölfarið frá okkur tilkynningu um viðræðurnar og hvað hefði komið út úr þeim. Það kom einfaldlega ekkert út úr þeim. Við höfum ekki lýst stuðningi við neina sérstaka stefnu aðra en þá að við styðjum öll þrjú persónulega að aðildarviðræðurnar verði kláraðar, en það er ekki nein verslunarvara í neinum stuðningi við einhver mál og það eru engar slíkar viðræður í gangi sem stendur.