140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

vinna við landbúnaðarkafla í ESB-viðræðunum.

[10:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég skal gera mitt besta á þessum skamma tíma. Það er alveg rétt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið fer auðvitað með mikilvæga kafla þessa máls og þar tengist því talsverð vinna. Hún er unnin af hópi fólks, sumpart innan ráðuneytisins, sumpart í stofnunum ráðuneytisins og sumpart eru það þeir sem sitja í samningahópum um viðkomandi málaflokka. Það er þannig nokkur hópur manna sem leggur sitt af mörkum þegar verið er að móta samningsmarkmið og undirbúa þau.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið fékk hækkuð framlög í fjárlögum yfirstandandi árs gagngert vegna þess að það lá fyrir að á því ráðuneyti mundu mæða mikil störf þessu tengt. Það hefur skapað svigrúm til þess að ráðuneytið hefur aðeins rýmri stöðu sjálft og/eða til að afla sér liðsauka við þessa vinnu. Ráðuneytisstjórinn leiðir annan samningahópinn og lögmaður hinn og eftir föngum eru þeir aðstoðaðir við störf sín. Það er erfitt að slá á það tölu en á köflum má sjálfsagt segja að ígildi tveggja eða þriggja starfa sé að verulegu leyti undir í þessari vinnu. Sömuleiðis mæðir talsvert á Matvælastofnun vegna þeirrar sérþekkingar sem þangað þarf að sækja, t.d. í sambandi við landbúnað og dýraheilbrigði.

Staða vinnunnar er þannig að það er mjög langt komið að ganga frá köflunum um bæði landbúnað og sjávarútvegsmál. Það eina sem ég get sagt um innihaldið er að fylgt verður í einu og öllu þeirri leiðsögn sem er að finna í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar og jafnvel á köflum rúmlega það.