140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það sem mér finnst dálítið varhugavert eða kannski ekki til sóma fyrir þingið og það er framkoman gagnvart starfsfólkinu í ráðuneytunum. Nú er farið í þessar miklu breytingar á síðustu metrum kjörtímabilsins og maður gerir sér grein fyrir að fólkið sem vinnur í þessum ráðuneytum verður auðvitað óvisst um stöðu sína, hvernig þetta muni verða, sérstaklega í ljósi þess að ekki er vitað nákvæmlega undir hvaða ráðuneytum viðkomandi stofnanir eiga að vera, það virðist vera einhver kapall sem á að leysa eftir á, og líka í ljósi þess að það gætu hugsanlega orðið breytingar aftur eftir örfáa mánuði.

Mig langar til að biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir sjónarmið sín gagnvart þessari framkomu við starfsfólkið, að hafa þetta alltaf einhvern veginn í lausu lofti í staðinn fyrir að vinna þetta þannig að það skapist meiri sátt um það, þó ekki væri nema með tilliti til starfsfólks ráðuneytanna.