140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er, ekkert ósvipað og á þeim fundi sem ég var á áðan í atvinnuveganefnd með skýrsluhöfundum sem hafa farið yfir forsendur, að miklu skynsamlegra hefði verið að fá þann fund miklu fyrr, sérstaklega fyrir þá sem sömdu þingsályktunartillöguna. Mjög upplýsandi hefði verið að fá í greinargerðina þær upplýsingar sem eru í þessum starfshópi um skipan ráðuneyta atvinnuvega á Norðurlöndum. Þá hefði sá rökstuðningur að vísu fallið um sjálfan sig, að hér væri verið að setja á laggirnar norrænt ráðuneytakerfi. Svo er ekki, það er bara hreinn útúrsnúningur að halda því fram nema ef menn ætla að horfa eingöngu á efnahags- og viðskiptaráðuneytið þar sem það er í sumum þeim löndum undir fjármálaráðuneytinu eingöngu. Þeir upplifðu ekki bankahrunið sem við upplifðum nýlega og erum að reyna að byggja okkur upp aftur eftir.

Varðandi tilvísanir til rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar tek ég undir að mér hefði þótt eðlilegra að í stað þess að vera stöðugt með óljósar tilvísanir til niðurstöðu þeirra skýrslna, annars vegar skýrslu rannsóknarnefndarinnar og hins vegar þessarar svokölluðu 63:0 skýrslu eða þingsályktunartillögu, hefði rökstuðningurinn verið settur upp með beinni tilvísun til þess sem þar stæði. Ég kannast ekki við marga þá hluti sem oft er vísað óljóst til.

Til að mynda hefur því margoft verið kastað hér fram að þessi hópur þingmannanefndarinnar og þingið allt hafi síðan samþykkt að það ætti að setja á laggirnar þjóðhagsstofnun undir forsætisráðuneytinu. Það er alrangt. Þó hefur verið unnið með þeim hætti að því að byggja upp lagaskrifstofu og hagskrifstofu undir forsætisráðuneytinu. Það er alrangt (Forseti hringir.) og ég óttast að svo sé um fleiri tilvísanir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannaskýrsluna.