140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur aðeins komið fram með línurnar og menn hafa gefið mjög óljósar vísbendingar um það hvar einstakar stofnanir falla eftir þessar breytingar.

Við ræddum það hér, held ég í fyrri umferðinni, að hugsanlega væri ein ástæða þess að menn sýndu ekki meira á spilin, sýndu ekki nánar hvar einstakar stofnanir ættu að lenda, einfaldlega sú að það væri svo lítill meiri hluti. Reyndar kom í ljós að minni hluti væri innan stjórnarliðsins á bak við þessar breytingar. Menn treystu sér hreinlega ekki til að koma fram með nákvæmari tillögur um það hvar stofnanirnar ættu að vera því að þá mundi andstaðan við þessar breytingar vaxa.

Ég tók sem dæmi þessa lýsingu á uppskiptingu ráðuneyta á Norðurlöndum. Þar er til að mynda hafrannsóknastofnunin klárlega undir sjávarútvegsráðuneytinu í Noregi og við höfum horft upp á það að hér á að leggja Siglingastofnun niður en siglingastofnanir eru til (Forseti hringir.) annars staðar á Norðurlöndunum. Nú verður hún hvergi til hér á landi og hvar verður þá samstarf Siglingastofnunar Íslands — sem ekki er til — við systurstofnanir á Norðurlöndum?