140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:22]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Því fer fjarri að Sjálfstæðisflokkurinn sé með mál sem varðar húshitun á köldum svæðum í einhverri gíslingu. Ég hvet til þess að það mál verði sett strax á dagskrá til að eyða öllum vafa um að sjálfsagt er að ræða það eins og önnur mál.

Ég hvet líka þá þingmenn sem taka stórt upp í sig og segja stjórnarandstöðuna, og kannski Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega, vera með þingið í gíslingu, til að kynna sér tölulegar staðreyndir um það hvenær mál hafa almennt komið fram á þinginu, og skoða svo listann yfir þau mál sem ríkisstjórnin lagði fram á síðasta framlagningardegi þessa þings, þau eru á sjötta tug. Ég hvet þessa hv. þingmenn til að velta því svo fyrir sér hversu sanngjörn sú krafa er að þingið afgreiði öll þau mál án nokkurra málalenginga eins og þingið eigi að vera einn risastór stimpilpúði fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og hleypi málum í gegn óræddum og óskoðuðum. Ætli það væri til dæmis skynsamlegt varðandi frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra, (Forseti hringir.) sem er mál sem mundi gera stóran hluta sjávarútvegsfyrirtækja í landinu gjaldþrota samkvæmt þeirri umsögn sem atvinnuveganefnd þingsins hefur fengið? Væri það (Forseti hringir.) skynsamleg meðhöndlun þingsins?