140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður endaði á því að fjalla um sjálfstætt efnahagsráð eða nýja ríkisstofnun sem fjallað er um bæði í athugasemdum með tillögunni sjálfri og í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, því að við tökum þar sérstaklega fram að við teljum mikilvægt að tryggja og treysta samfélagslegt aðhald við hagstjórn til mótvægis við þetta stóra og styrkta efnahags- og fjármálaráðuneyti. Þó að fram komi að koma eigi upp sjálfstæðu efnahagsráði óháðra sérfræðinga eins og er að finna í Danmörku og í Svíþjóð, sem við teljum gott, teljum við líka mikilvægt að komið verði á fót efnahagsstofnun sem gegni svipuðu hlutverki og Þjóðhagsstofnun gerði áður en einn maður í einu ráðuneyti lagði hana einhendis niður á einni nóttu.

Við vekjum þar athygli á því að í tillögunni, sem þekkt er undir heitinu 63:0 frá því í september 2011, er samþykkt að stofnuð skuli sjálfstæð ríkisstofnun í þessu skyni. Við hvetjum til þess að brugðist verði við þeirri samþykkt á vettvangi ríkisstjórnarinnar og Alþingis en við tökum ekki afstöðu til þess frekar en hv. þingmaður hvernig eða hvar eigi að vista slíka stofnun. En mér sýnist við geta verið sammála um að það sé sérstaklega mikilvægt fyrir þingmenn og þingið að geta leitað í aðrar og sjálfstæðari áttir en nú er með hagspár frá Hagstofunni og Seðlabanka. Þó að við tökum ekki afstöðu til þess hvar þessi stofnun eigi að vistast leggjum við mikla áherslu á að (Forseti hringir.) sjálfstæði hennar sé algjörlega tryggt.