140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, hæstv. forsætisráðherra steytti hér hnefann í morgun og sagði hv. þingmönnum að það væri alvanalegt að mál væru afgreidd á færibandi, það væri alvanalegt og fullkomlega eðlilegt að mál væru afgreidd á færibandi í þinginu.

Frú forseti. Maður fer að verða dálítið þreyttur á því að þeir forustumenn ríkisstjórnarinnar sem hér eru líti á Alþingi sem stimpilpúða á þessu færibandi. Þetta gengur ekki lengur. Við horfum upp á það í því máli sem hér er á dagskrá, það mál fékk ekki eðlilega þinglega meðferð vegna þess að það átti að fara á þessu svokallaða færibandi í gegnum þingið.

Svo kemur tilboð fram frá fólki sem vill gera breytingar um að taka mál á dagskrá og koma þeim til nefnda en þá kemur þetta sama færiband og hnefi hæstv. forsætisráðherra upp í loftið og hindrar það að við náum nýjum vinnubrögðum og (Forseti hringir.) hindrar það að mál geti fengið eðlilega þinglega meðferð. Þetta er að sjálfsögðu algerlega ótækt og (Forseti hringir.) ótrúlegt með öllu að nýir þingmenn sem eru komnir hingað inn og (Forseti hringir.) sögðust ætla að breyta hér málum skuli vera komnir í þessa færibandaafgreiðslu.