140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst skynsamlegt að við nýtum nefndadaga í næstu viku eins vel og við getum. Samkvæmt starfsáætlun þingsins er gert ráð fyrir því að mánudagur, þriðjudagur og miðvikudagur séu nefndadagar. Það er fimmtudagur í dag. Allt frá upphafi hefur legið fyrir að mikill ágreiningur er um það mál sem hér er á dagskrá. Það liggur fyrir að stjórnarandstaðan og einstakir stjórnarþingmenn setja fyrirvara við þetta mál og gera við það athugasemdir. Tveir fyrrverandi hæstv. ráðherrar stjórnarmeirihlutans lýsa andstöðu sinni við það.

Þegar þannig er í pottinn búið er skynsamlegt að leggja málið til hliðar um sinn og hleypa að þeim 15 málum sem stjórnarandstaðan hefur boðist til að liðka fyrir til að koma þeim nefndar, mál sem ríkisstjórnin sjálf hefur litið á sem mikilvæg mál til að koma til nefndar og vill að þau komist til nefndar. Stjórnarandstaðan er að liðka fyrir því. Það er afskaplega óskynsamlegt (Forseti hringir.) af forustumönnum stjórnarliða að leggjast gegn því.