140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að við hv. þingmenn erum sammála um þennan þátt. Ég held að það séu margir kostir út frá sjónarhorni starfsmannsins, fyrir utan að vera skemmtilegra, svo maður segi það bara, að prófa fleiri hluti og takast á við fjölbreyttari verkefni. Sömuleiðis held ég að það mundi leiða af sér að sú þekking sem nauðsynleg er í Stjórnarráðinu yrði miklu dreifðari. Það er auðvitað vandi í því litla stjórnarráði sem við erum með að hver einstaklingur er nokkurn veginn með alla þekkinguna á einu sviði og það er bara viðkomandi starfsmaður, kannski einhver annar með honum. Það þarf lítið út af að bregða til að sú þekking glatist. Við erum sammála um það.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann líka að, sem vakti athygli mína, er hvað þetta er ótrúlega illa unnið. Eitt er að það eru engar áætlanir um hvað þetta kostar. Það eina sem ég hef séð haldfast um hvað kostnaðurinn hefur verið fram til þessa og á að vera er húsnæðiskostnaðurinn. Menn eru að tala um að byggja við húsnæði og gera allra handa hluti. Kostnaðurinn er nú þegar milli 200 og 300 millj. kr. Sumu verður bara hent út um gluggann af því að við ætlum að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Þar fóru 25 milljónir sisvona sem voru settar í það fyrir tveimur árum. Engar áætlanir eru um það til dæmis. Rökin fyrir að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið voru þau að það þyrfti svo mikla peninga í að efla það, en væntanlega þarf að setja sambærilega peninga í fjármálaráðuneytið því að ekki sitja þar tíu starfsmenn sem hafa verið þar í mörg ár og bíða eftir þeim verkefnum sem eiga að bætast við í ráðuneytinu þegar það hefur tekið efnahagsmálin yfir.

Hv. þingmaður er með reynslumeiri þingmönnum og þekkir þetta. Hvað finnst honum um þau vinnubrögð (Forseti hringir.) að við sjáum ekki hvað þessir hlutir eiga að kosta?