140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:53]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta voru afar óljós svör hjá virðulegum forseta um framhald fundarins. Fyrir liggur að haldið var áfram í gær með þingstörfin lengi fram eftir. Nefndafundir hófust klukkan hálfníu í morgun og það liggur fyrir að virðulegur forseti hyggst halda sig við það að nefndafundir verði samkvæmt skipulagi þingsins aftur snemma í fyrramálið.

Það að eitthvað verði haldið áfram er nauðsynlegt að hæstv. forseti skýri nákvæmlega hvað í felst. Er verið að tala um klukkutíma til viðbótar, tvo klukkutíma til viðbótar? Þingmenn verða að geta skipulagt starf sitt af einhverri skynsemi og þótt ekki hafi tekist í dag að ná neinu skynsamlegu skipulagi í störf þingsins er enn von til þess að stjórn þingsins sjái að ekki er hægt að halda áfram fram eftir allri nóttu. Ég fer fram á það við virðulegan forseta (Forseti hringir.) að hér verði skýrari svör.