140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar til að halda áfram að vitna í ummæli forustumanna ríkisstjórnarinnar við svipaðar aðstæður og við erum nú í en þar var m.a. sagt, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Frumvarpið er að þessu leyti með ólíkindum. Það er í raun og veru með ólíkindum. Ég var að velta því fyrir mér hversu mönnum hafi farið aftur á Íslandi, hversu skammarlega léleg vinnubrögðin skuli vera orðin hér. Gengið skal frá þessu gríðarlega stóra máli hér, pína það í gegnum Alþingi með næturfundum og hörku og skjalið sem byggt er á er ómerkilegur snepill, það er snifsi.“

Þetta gæti vel átt við þetta mál. Það segir áfram, með leyfi forseta:

„Ég held því að það sé ekki skynsamlegt að vera að keyra hér á löngum næturfundum þannig að mannskapurinn sé þeim mun dasaðri daginn eftir. Það liggur þannig að verði næturfundur frekar en orðið er er augljóslega ekki hægt að endurtaka það á morgun. Það er ekki til siðs á Alþingi að halda kvöld- eða a.m.k. næturfundi marga daga í röð þannig að mér sýnist að ósköp lítið vinnist með því að halda miklu lengur áfram og ef það yrði gert þá mundi það fyrst og fremst leiða til þess að það yrði ekki hægt að byrja á sama tíma aftur í fyrramálið.“

Þetta eru ummæli forustumanna núverandi hæstv. ríkisstjórnar, virðulegi forseti. Það getur því ekki verið vilji forustumanna ríkisstjórnarinnar að (Forseti hringir.) mál séu meðhöndluð með þessum hætti á Alþingi í ljósi ummæla þeirra við svipuð tækifæri áður og ekki er það vilji okkar stjórnarandstöðuþingmanna að þetta haldi áfram með þessum fáránlega hætti. Ég óska því eftir að virðulegi forseti fresti nú fundi og taki upp viðræður við stjórnarmeirihlutann um að farið verði að þessum tilmælum og vilja (Forseti hringir.) forustumanna ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar.