140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum. Megintilefni frumvarps þessa er að bregðast við niðurstöðum rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi Íbúðalánasjóðs frá 18. júlí 2011 um að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar, vaxtaniðurgreiðslna, undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts. Ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA var í formi tilmæla til íslenskra stjórnvalda um að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að lánafyrirkomulag Íbúðalánasjóðs yrði í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Með frumvarpi þessu legg ég því til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum um húsnæðismál til að koma til móts við framangreind tilmæli Eftirlitsstofnunarinnar og tryggja að veiting ríkisaðstoðar til Íbúðalánasjóðs verði í betra samræmi við ríkisaðstoðarreglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Jafnframt legg ég til breytingar er snerta eftirlit Fjármálaeftirlitsins með starfsemi sjóðsins en nauðsynlegt þykir að skýra betur hlutverk Fjármálaeftirlitsins í eftirliti með Íbúðalánasjóði. Fjármálaeftirlitinu hefur þegar verið falið eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs. Með frumvarpi þessu eru settar nánari reglur um starfsemi sjóðsins sem Fjármálaeftirlitið hefur síðan eftirlit með. Flest þessara ákvæða eiga sér fyrirmyndir í lögum um fjármálafyrirtæki en hafa verið löguð að starfsemi og markmiði Íbúðalánasjóðs sem er afmarkaðra en hefðbundin starfsemi annarra fjármálafyrirtækja.

Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið kemur fram sú meginregla að hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki að samningnum veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, sé ósamrýmanleg framkvæmd samningsins að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Það kemur þó ekki í veg fyrir að ríkjum er heimilt að veita ríkisaðstoð til fyrirtækja er veita þjónustu í þágu almennings ef uppfyllt eru skilyrði um sérstakar undanþágur sem kveðið er á um í samningum um Evrópska efnahagssvæðið.

Skilyrði fyrir beitingu undanþágunnar eru í fyrsta lagi að ríkisaðstoðin þarf að vera endurgjald fyrir þjónustu sem veitt er í almannaþágu. Í öðru lagi er gerð krafa um að viðkomandi aðila sé sérstaklega falið að veita nánar skilgreinda þjónustu í þágu almennings. Í þriðja lagi er einungis heimilt að veita aðstoð sem er nauðsynleg og ekki fram úr hófi miðað við skilgreinda þjónustu sem ætlunin er að veita. Í fjórða lagi má ríkisaðstoð ekki fela í sér röskun á markaði að því marki að hún skaði hagsmuni samningsaðila á Evrópska efnahagssvæðinu.

Svo unnt sé að tryggja að starfsemi Íbúðalánasjóðs samræmist reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er lagt til að gerðar verði tilteknar breytingar á lögum um húsnæðismál er snerta lánveitingar Íbúðalánasjóðs til einstaklinga vegna fasteignakaupa. Í því sambandi er gert ráð fyrir að þrenns konar hámörk verði á lánveitingum Íbúðalánasjóðs til einstaklinga vegna fasteignakaupa. Þar ber fyrst að nefna að lagt er til að fært verði í lög að lán frá Íbúðalánasjóði fari ekki yfir 80% af matsverði íbúðar. Ekki er um að ræða breytingu frá gildandi reglum en lögin hafa engu síður heimilað að þetta hlutfall geti farið upp í 90% af matsverði. Áfram er gert ráð fyrir að hámarkslán sjóðsins verði 20 millj. kr. í samræmi við gildandi reglur, hins vegar er lagt til að Íbúðalánasjóði verði ekki heimilað að veita lán til kaupa eða byggingar íbúðarhúsnæðis þegar hámarksfjárhæð íbúðalánasjóðsveðbréfa nemur minna en 40% af fasteignamati íbúðarhúsnæðisins.

Þessi tillaga þýðir með öðrum orðum að Íbúðalánasjóði verður einungis heimilt að lána til fasteigna að verðmæti allt að 50 millj. kr. miðað við fasteignamat þar sem áfram er gert ráð fyrir að hámarkslán sjóðsins verði 20 millj. kr. Samkvæmt þessu yrði Íbúðalánasjóði ekki heimilt að lána vegna verðmætara húsnæðis en sem því nemur. Ástæða þess er sú að veiting láns vegna svo verðmæts íbúðarhúsnæðis verður ekki talin rúmast innan félagslegra markmiða sjóðsins um fjármögnun íbúðarhúsnæðis fyrir almenning á viðráðanlegum kjörum og því brot á þeim meðalhófskröfum sem undanþágan frá ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er bundin.

Við mat á áhrifum breytingarinnar er áætlað, miðað við skráð matsverð fasteigna vegna ársins 2012, að þessar takmarkanir leiði til þess að Íbúðalánasjóði verði heimilt að veita lán til kaupa á um 99,4% íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni og um 94,4% íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt þessu yrðu flestar fasteignir á Íslandi því áfram lánshæfar hjá Íbúðalánasjóði þrátt fyrir þetta viðbótarskilyrði.

Mikilvægt þykir að hafa hámark á lánveitingum Íbúðalánasjóðs svo hátt að svo stöddu, en við mat á því var tekið tillit til stöðunnar á fasteignamarkaði sem og þeirrar óvissu sem þykir ríkja um aðkomu íslenskra fjármálafyrirtækja að fasteignalánamarkaðnum til framtíðar.

Ég tel mikilvægt að halda til haga þeim sjónarmiðum sem íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á í viðræðum sínum við Eftirlitsstofnun EFTA um að markaðsbrestur sé til staðar á íslenskum fasteignamarkaði eins og sakir standa. Verður að taka tillit til þeirrar staðreyndar við mat á undanþágu frá fyrrgreindum meginreglum um ríkisaðstoð vegna þjónustu í almannaþágu. Þannig þurfi ekki einungis afmarkaður hópur á þjónustu Íbúðalánasjóðs að halda heldur sé nauðsynlegt að tryggja að sem flestir hafi möguleika á að fá þar lán til íbúðakaupa.

Hins vegar þykir ljóst að gera verður ráð fyrir því að sá markaðsbrestur sem nú er til staðar verði ekki viðvarandi. Því þykir nauðsynlegt að tryggja að þegar aðstæður á markaði breytast verði umfang ríkisaðstoðar til Íbúðalánasjóðs lagað að þeim breytingum svo markaðurinn geti áfram verið í samræmi við þau skilyrði sem undanþágur frá ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið byggja á. Í því skyni er lagt til að ráðherra endurskoði annað hvert ár hvort breyta þurfi hlutfalli hámarksfjárhæðar íbúðalánasjóðsveðbréfa af fasteignamati íbúðarhúsnæðis með tilliti til breytinga á lánamörkuðum, þróunar verðlags og þjóðhagsforsendum. Hafi orðið breytingar í þá veru að takmarka beri hlutdeild Íbúðalánasjóðs á fasteignalánamarkaði þegar litið er til fyrrgreindra skilyrða er jafnframt gert ráð fyrir að ráðherra mæli í reglugerð fyrir um breytingu á hlutfalli hámarksfjárhæðar íbúðalánasjóðsveðbréfa af fasteignamati íbúðarhúsnæðis að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar. Hér er átt við 50 millj. kr. þakið á lánveitingum Íbúðalánasjóðs. Er þetta lagt til svo takmarka megi enn frekar heimildir Íbúðalánasjóðs til að veita lán til kaupa á dýrari eignum ef talin er ástæða til þess.

Með þessu er ráðherra falið það hlutverk að takmarka hlutdeild Íbúðalánasjóðs á markaði þegar ástæða þykir til svo unnt sé að stuðla að eðlilegri samkeppni á fasteignalánamarkaði.

Enn fremur eru lagðar til breytingar á heimildum Íbúðalánasjóðs er varða lán til félaga í því skyni að tryggja að starfsemi Íbúðalánasjóðs samræmist reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í fyrsta lagi ber að nefna að lagt er til að takmarka lánveitingar Íbúðalánasjóðs til endurbóta, byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði við almenn lán til einstaklinga. Lánveitingar til fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni eru ekki talin samræmast ríkisstyrkjareglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tilgangi Íbúðalánasjóðs sem er að veita þjónustu í almannaþágu. Þar með er tekið fyrir að Íbúðalánasjóði sé heimilt að veita félögum, þar á meðal byggingarverktökum, lán til endurbóta, byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði.

Í öðru lagi ber að nefna breytingar er snerta lán til leigufélaga. Íbúðalánasjóður hefur annars vegar veitt lán til leigufélaga sem bjóða félagslegar íbúðir og hins vegar til almennra leigufélaga. Mismunandi reglur gilda um þessa tvo lánaflokka. Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki gert athugasemdir við lánveitingar sjóðsins til leigufélaga sem bjóða félagslegar íbúðir en hefur hins vegar lýst yfir efasemdum um lán til almennra leigufélaga. Í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA kemur fram að ríkisaðstoð vegna lána til leigufélaga geti talist samræmast ríkisaðstoðarreglunum að því tilskildu að settar verði frekari takmarkanir á slíkar lánveitingar þannig að þær tryggi möguleika fólks á að leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Nefnt var sem dæmi að hugsanlega væri unnt að takmarka stærð og verð leiguhúsnæðis og setja viðmið um tekjur leigjenda eða önnur viðeigandi viðmið. Til að koma til móts við tilmæli Eftirlitsstofnunar EFTA er lagt til að fella saman þá lánaflokka sem annars vegar varða lán til félagslegra leiguíbúða og hins vegar til almennra leiguíbúða og samræma þar með skilyrði slíkra lánveitinga. Í því sambandi er lagt til að gert verði að skilyrði fyrir lánveitingum til leiguíbúða að félög og félagasamtök sem fá lán til kaupa eða byggingar leiguhúsnæðis hafi það sem langtímamarkmið að eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis. Enn fremur er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja í reglugerð frekari skilyrði um lán til leiguíbúða, þar á meðal um lágmarksfjölda íbúða, gerð þeirra, stærð, hagkvæmni og byggingarkostnað, úrræði til þess að tryggja sem lægst íbúðarverð, takmarkanir við arðgreiðslum og þinglýsingu leigusamninga.

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hefur þetta frumvarp meðal annars að geyma mikilvægar breytingar á gildandi lögum um húsnæðismál vegna tilmæla frá Eftirlitsstofnun EFTA. Í mínum huga er afar mikilvægt að Alþingi afgreiði frumvarp þetta fyrir lok þingsins þannig að koma megi í veg fyrir neikvæðar afleiðingar þess að fara á svig við ríkisstyrkjareglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.