140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki er hægt annað en að taka undir síðustu orð þingmannsins, það er svo augljóst.

Hv. þingmaður ræddi hér kaflana sem á eftir að opna eins og varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Það er flestum orðið ljóst að allt þetta ferli með Evrópusambandið er komið í einn stóran hnút og ekki síst vegna þess að ástandið innan Evrópusambandsins er að sjálfsögðu orðið mjög skrautlegt. Gárungarnir segja að þetta sé orðið þannig í Evrópusambandinu að nú ráði Holland yfir Frakklandi, af því að frambjóðandinn heitir Hollande sem þar náði kjöri. Það er athyglisvert fyrir Frakka.

Hv. þingmaður nefndi þarfari verk, það væri nær að einbeita sér að þarfari verkum. Ég velti því upp við hv. þingmann hvort hann geti gengið í lið með þeim er hér stendur að bjóðast til að hliðra til fyrir 33. máli á dagskrá þingsins sem er greiðsluaðlögun einstaklinga, kærufrestur, breyting samnings, mál sem velferðarnefnd leggur fram. Ég velti því fyrir mér hvort rétt sé að fresta þeirri umræðu sem hér er. Ég átta mig kannski ekki alveg á hvort full samstaða er um það mál nákvæmlega en hins vegar sýnist mér að þarna sé reynt að laga stöðu einhverra einstaklinga í landinu og má velta því upp hvort taka eigi það mál eða einhver önnur sem eru jafnvel brýnni á dagskrá frekar en það mál sem hér er rætt. Ég hef lýst því að ég hygg að framsóknarmenn séu reiðubúnir að hliðra til dagskránni til að koma þarfari málum í umræðu og til nefnda og fresta þessu máli. Það er ljóst að menn eru ósammála um þetta mál, bæði stjórnarandstaðan og ríkisstjórnin (Forseti hringir.) og innan stjórnarflokkanna.