140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var ekki mælt með auknum hringlandahætti í stjórnsýslu, þvert á móti. Þar var mælt fyrir því að stjórnsýslan yrði bætt og efld. Nú er verið að gera þessar miklu breytingar á síðasta ári kjörtímabilsins og eins og kom fram í máli síðasta hv. ræðumanns ríkir ekki einhugur um þær, ekki einu sinni innan ríkisstjórnarflokkanna. Ég fullyrði að þessar breytingar munu ekki lifa af ríkisstjórnarskipti. Sumar hverjar hafa legið fyrir í nokkurn tíma en aðrar eru nýjar og hafa ekki fengið nægilega umfjöllun, málið fékkst ekki einu sinni sent út til umsagnar í meðförum nefndarinnar. Það er vont að fara í slíkar kollsteypur á síðasta ári (Forseti hringir.) veikrar ríkisstjórnar. Þetta mál hefði að ósekju átt að bíða.