140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög undarlegt andsvar hjá hæstv. ráðherra. Það fór úr því að ég hafi ekki viljað ræða fortíðina yfir í það að ég væri ásamt hæstv. ráðherra mikill áhugamaður um að ræða það. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að síðasta frumvarp hafi verið forsenda fyrir því að ríkið kæmi að sparisjóðunum. Það var enginn að tala um það, virðulegi forseti, það var varað við því að eftir samþykkt þess frumvarps yrðu bara til ríkissparisjóðir sem enginn vissi hvað ætti að gera við. Það kom á daginn og hæstv. ráðherra verður að átta sig á því, af því að hæstv. ráðherra er að flytja hér frumvarp um að gera sparisjóðina, sjálfseignarstofnanirnar, að hlutafélögum. Það er það sem mun gerast. Ef hæstv. ráðherra áttar sig ekki á því er það mjög alvarlegt mál. En það er það sem hæstv. ráðherra var að samþykkja að leggja fram og ef við samþykkjum það óbreytt mun það gerast.

Hæstv. ráðherra verður að átta sig á því að þegar kemur að sérhagsmunum eru það fyrst og fremst vinstri flokkarnir sem hafa staðið fyrir því og hins vegar sú mýta sem menn eru að reyna að koma að, m.a. með hjálp mjög vinstri sinnaðra fræðimanna sem hafa komið fram og haldið því statt og stöðugt fram að hér hafi ójöfnuður aukist út í það óendanlega. Þeir fara ekki með rétt mál. Ég vek athygli á því að ef við tökum Gini-stuðulinn og miðum við allar þær upplýsingar sem eru til staðar, þ.e. gögn ríkisskattstjóra, eins og Vísbending hefur gert, kemur í ljós að ójöfnuður hefur aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ójöfnuður, miðað við Gini-stuðulinn sem hér var veifað áður, hefur aukist í tíð ríkisstjórnarinnar.

Það þýðir ekki, virðulegi forseti, að koma hér enn og aftur og spila þann leik að koma með aðila sem gegnir trúnaðarembættum fyrir ríkisstjórnina, því að sá fræðimaður sem kemur með þennan dóm yfir ríkisstjórninni og dóm yfir fyrri ríkisstjórnum er trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar og stjórnarformaður Tryggingastofnunar. Þar á undan hefur hann unnið allra handa verkefni fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna í gegnum tíðina og verið þeirra nánasti bandamaður. (Forseti hringir.) Við þurfum að skoða staðreyndir og ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér staðreyndir, bæði varðandi Gini-stuðulinn og ég tala nú ekki um það mál sem við erum að ræða. Ef við getum talað út frá staðreyndum erum við (Forseti hringir.) komin á góðan stað.